Fjölbreyttur og sterkur framboðslisti

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Ég er bara mjög sáttur við mína útkomu og þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Ég er sáttur við mína prófkjörsbaráttu sem gekk mjög vel. Ég held að við séum þarna komin með mjög frambærilegan og sterkan lista fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu kjördæmi.“

Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann hlaut 3. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi sem fram fór í gær. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hélt fyrsta sætinu og Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður varð í öðru. Jón skipaði 4. sæti framboðslista flokksins fyrir síðustu þingkosningar.

„Ég stefndi á annað sætið en það er bara eins og gengur og gerist í prófkjörum. Niðurstaðan er engu að síður sú að ég fæ mjög góða kosningu og hækka mig á listanum um eitt sæti þannig að ég get verið mjög sáttur eftir prófkjörsbaráttuna og við það traust sem mér er sýnt,“ segir hann ennfremur.

„Núna hefst bara kosningabaráttan af fullum krafti og verður í þinginu í vetur og við undirbúum okkur fyrir kosningarnar í vor,“ segir hann ennfremur og bætir við aðspurður að staða Sjálfstæðisflokksins sé sterk í Suðvesturkjördæmi sem sjáist meðal annars á skoðanakönnunum.

„Okkar takmark hlýtur að vera að styrkja stöðu okkar enn frekar, sem ég tel að við höfum tækifæri til. Ég tel að við séum með öflugan lista og fjölbreyttan. Þarna eru sterkir einstaklingar sem mynda góða heild,“ segir Jón að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert