Gafst upp á að flytja ræðuna

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG. mbl.is/Sigurður Bogi

„Forseti, ég gefst upp á þessum háttvirta þingmanni. Það er ekki hægt, það er ekki hægt að fá hér eina eða tvær mínútur til þess að ræða þingsköp, ræða um störf þingsins og þurfa endalaust að svara spurningum utan úr sal. Þetta er ekki, þetta er ekki boðlegt.“

Þetta sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag og hvarf síðan úr ræðustól þingsins. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, steig úr sæti sínu og barði í bjölluna og bað þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð og minnti á að samræður við ræðumenn úr þingsal væru ekki heimilar.

Áður en hún hvarf úr ræðustólnum hafði Álfheiður gagnrýnt framgöngu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vegna annarrar umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar en spurningarnar komu frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert