Jóhanna og Bjarni tókust hart á

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu að framganga Alþýðusambands Íslands, með birtingu auglýsingar í Fréttablaðinu í gær, væri fordæmalaus og ósanngjörn. Bjarni Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins beindi þeirri spurningu til ráðherrans hvort ekki væri tímabært fyrir ríkisstjórnina að „skila lyklunum“.

Átök, svik og sundrung

Talsverður hiti var í óundirbúnum fyrirspurnartíma við upphaf þingfundar í morgun og nokkuð um framíköll þingmanna. Bjarni Benediktsson steig fyrstur í pontu og vitnaði til þeirra orða ASÍ að ríkisstjórnin hafi sett heimsmet í svikum, en eina svar ríkisstjórnarinnar sé að segja Alþýðusambandið ljúga.Sagði hann ríkisstjórnina forherta.

„Hlutverk ríkisstjórnarinnar er að skapa sátt í samfélaginu og leiða saman þjóðina, en ekki efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu. Því miður hefur allt þetta kjörtímabil einkennst af brostnum væntingum launafólks,“ sagði Bjarni og spurði hvort ekki væri tími til kominn að ríkisstjórnin viðurkenndi eigið úrræðaleysi. „Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“

Annarlegur tilgangur stjórnarandstöðu

Jóhanna Sigurðardóttir sagði á móti að ríkisstjórnin hafi þurft að sitja undir „eilífum svikabrigslum af hálfu ASÍ“ sem séu orðin svo tíð að þeir geti vart talist marktækir. Sagði hún auglýsinguna sem birtist í gær, þar sem rakið var í 8 liðum meint svik ríkisstjórnarinnar, væri fordæma- og tilefnislaus. ASÍ hafi sjálft ekki staðið við sitt og reynt að koma sér undan því að bæta skuldastöðu heimilanna, sem ríkisstjórnin hefði sett í 50-60 milljarða.

„Það stendur ekki steinn yfir steini í þessar auglýsingu. Hún styðst ekki við nein rök og ég verð að segja að ég skil ekki hvað vakir fyrir forystumanni ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni,“ sagði Jóhanna. Stjórnarandstaðan viti sjálf betur, en sé að nýta sér framgöngu ASÍ í annarlegum tilgangi á lokadögum þingsins.

Jóhanna spurði einnig hvort Bjarni ætti við að ríkisstjórnin ætti að skila lyklunum til Sjálfstæðisflokksins. „Ég er sannfærð um það að ef svo illa fer í kosningunum í vor að sjálfstæðismenn taki við völdum, þá myn forysta ASÍ þakka fyrir þann tíma sem hún hefur haft með félagshyggjustjórn síðastliðin ár.“

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert