Varla farið verr fyrir dómstólum

Héraðsdómur Reykjavíkur, varnarþing íslenska ríkisins.
Héraðsdómur Reykjavíkur, varnarþing íslenska ríkisins. mbl.is/Hjörtur

Flest bendir til þess að jafnvel þó að Icesave-málið hefði farið á versta veg fyrir dómstólum hvað hagsmuni Íslands varðar hefði niðurstaðan ekki orðið verri en það sem síðustu samningarnir sem felldir voru í þjóðaratkvæði fyrir tæpum tveimur árum, svonefndir Icesave III samningar, kváðu á um. Hugsanlega hefði slík niðurstaða jafnvel orðið hagstæðari en samningarnir sem kváðu á um greiðslur af hálfu Íslands í erlendum gjaldeyri.

Eins og margoft hefur komið fram fjallaði EFTA-dómstóllinn einungis um það hvort Ísland hefði brotið gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar sem innleidd var hér á landi á sínum tíma. Dómstóllinn fjallaði hins vegar ekki um það hvort hugsanleg brot fælu í sér fjárhagsskuldbindingar fyrir Ísland.

Ef bresk og hollensk stjórnvöld hefðu viljað sækja skaðabætur á hendur Íslandi hefðu þau þurft að fara með málið fyrir íslenska dómstóla (að því gefnu að íslensk stjórnvöld hefðu ekki verið reiðubúin að taka upp samningaviðræður að nýju) en varnarþing íslenska ríkisins er Héraðsdómur Reykjavíkur. Það hefði einnig átt við um mögulegar kröfur ríkjanna tveggja um vexti og annan kostnað sem þau teldu sig eiga rétt á að fá greiddan vegna málsins.

Erfið sönnunarbyrði og krafan hugsanlega fyrnd

Óvíst er hins vegar fyrir það fyrsta hvort bresk og hollensk stjórnvöld hefðu átt lögmæta bótakröfu í þeim efnum þar sem þau urðu í raun ekki fyrir beinum skaða vegna málsins heldur tóku ákvörðun um að grípa inni í það og bæta þeim þegnum sínum, sem áttu innistæður í Icesave-netbankanum, skaða þeirra til þess að tryggja eigin efnahagslega hagsmuni.

Þá er ekki loku fyrir það skotið að krafa Breta og Hollendinga hefði talist fyrnd samkvæmt íslenskum lögum en almennur kröfufyrningarfrestur er fjögur ár hér á landi. Er þá miðað við að kröfurnar hefðu hugsanlega fyrnst fyrir áramót þegar fjögur ár voru liðin frá bankahruninu og þeim tíma þegar breskir og hollenskir ráðamenn ákváðu að bæta þegnum sínum innistæður þeirra.

Ef málið hefði hins vegar farið fyrir íslenska dómstóla hefðu bresk og hollensk stjórnvöld orðið að sýna fram á að þau hefðu orðið fyrir tjóni vegna þess. Bent hefur verið á að það hefði getað reynst þeim mjög erfitt einkum í ljósi þess að setning neyðarlaganna hér á landi haustið 2008 tryggði þeim meiri fjármuni vegna forgangs innistæðukrafna í bú fjármálastofnana en verið hefði ef TIF hefði getað staðið við skuldbindingar sínar í kjölfar hrunsins.

Þá má að lokum geta þess að ef Bretum og Hollendingum hefðu verið dæmdar skaðabætur fyrir íslenskum dómstólum vegna Icesave-málsins hefðu þær bætur væntanlega verið í íslenskum krónum samkvæmt meginreglu en ekki erlendum gjaldeyri líkt og Icesave-samningarnir kváðu á um. Þá er óvíst hvort slíkar skaðabætur hefðu orðið hærri en þær fjárhæðir sem Icesave III samningarnir kváðu á um en við gerð þeirra mun einkum hafa verið horft til þess kostnaðar sem bresk og hollensk stjórnvöld töldu sig hafa orðið fyrir vegna málsins.

Eins og áður segir má þannig færa sterk rök fyrir því að jafnvel þó Icesave-málið hefði farið á versta veg fyrir Íslendinga fyrir dómstólum, sem litlar eða jafnvel engar líkur eru á að hefði gerst, hefði sú niðurstaða líklega ekki orðið verri en síðustu Icesave-samningarnir svo ekki sé talað um þá samninga sem á undan komu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert