„Ég verð dyggur liðsmaður“

Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson eftir að búið var …
Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson eftir að búið var að lýsa Árna Pál rétt kjörinn formann Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Kristinn

„Það eru auðvitað alltaf vonbrigði þegar maður setur sér markmið að ná þeim ekki en engu að síður get ég ekki verið annað en ánægður og stoltur af þessari kosningabaráttu. Hún var mjög málefnaleg og niðurstaðan er skýr,“ sagði Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, í viðtali við mbl.is þegar ljóst var að hann hafði ekki árangur sem erfiði í baráttunni um formannsstól Samfylkingarinnar.

„Fólk fékk tækifæri til að velja, sem skiptir mestu máli. Það fékk tækifæri til að segja hug sinn og það lá alltaf fyrir frá upphafi að við hétum hvor öðrum að fylkja okkur á bak við þann sem ynni kosninguna þannig að ég fer ótrauður í kosningabaráttuna með Árna Páli til að vinna sem best að málum Samfylkingarinnar og þannig fyrir þjóðfélagið,“ sagði Guðbjartur.

-Árni Páll talaði um aðeins breyttar áherslur á samskiptum flokka. Sérðu fyrir þér einhverjar fleiri breytingar með Árna Pál sem formann?

„Ég ætla ekki að dæma um það. Breytt vinnubrögð voru á stefnuskrá beggja. Það er að segja að ræða saman betur. Virða ólík sjónarmið. Höfða til breiðari hóps því að Samfylkingin er stofnuð sem breiðfylking. Við leggjum báðir áherslu á það og ég styð hann heilshugar í því. Ég hef sagt að við megum passa okkur á að tapa aldrei okkar grunngildum. Við höfum sérstöðu sem flokkur með ákveðin grunngildi og sögu og við eigum að varðveita þau áður en við höslum okkur völl í framhaldinu.“

-Kosningaþátttakan var rúmlega þrjátíu prósent. Áttirðu von á meiri þátttöku?

„Kannski í byrjun en svo áttar maður sig á því að það kom í ljós að margir töldu að við værum báðir frambærilegir og töldu ekki ástæðu til að taka sérstaklega þátt eða taka afstöðu þannig að við bjuggum aldrei til þá stemningu að hér væri um að ræða einhverja mikla keppni og ætluðum okkur það ekki. Það er kannski ein af skýringunum en auðvitað er flokkskráin líka með fulltrúum frá hinum og þessum prófkjörum þannig að það eru ekki allir jafn áhugasamir um að taka þátt.

En það er auðvitað glæsilegt að vera með hátt á sjötta þúsund sem taka þátt og gaman að geta kosið formann með þeim hætti. Mér finnst það vera til fyrirmyndar og það segir að flokksmenn fá að ráða en ekki einhverjir sem eru skipaðir landsfundarfulltrúar.“

„Gjöldum þess að hafa verið í erfiðu verkefni“

-Nú er væntanlega upptakturinn að kosningabaráttunni sleginn á þessum fundi. 15,8% fylgi samkvæmt Gallup í gær. Stórt verkefni framundan væntanlega?

„Já - það er alveg ljóst að við erum að gjalda þess að hafa verið í erfiðu verkefni síðastliðin fjögur ár. Það er okkar að sýna þjóðinni hvaða árangri við höfum náð en um leið að sýna skýra framtíðarsýn og setja okkur fram sem öflugan valkost sem er ábyrgra flokka eins og Árni Páll sagði í sinni ræðu og ég tel að sé rétt sjónarmið. Við eigum að fara fram með hófsemd en einnig trú ákveðinni stefnu, okkar gildum og með lausnir. Þar höfum við sérstöðu varðandi Evrópusambandið og varðandi myntina og fleira sem verður dregið fram og skerpt í kosningabaráttunni.“

-Árni Páll talaði um góða kosningabaráttu ykkar í millum og fór fögrum orðum um þig í ræðunni. Ætlar þú að bjóða þig fram til varaformanns [spurt áður en framboðsfrestur rann út]?

„Nei ég tel það óeðlilegt. Það er líka hefð fyrir því í okkar flokki að við viljum skipta á milli kynjanna. Það verður örugglega kona valin varaformaður, enda á það að vera þannig fyrst að það verður ekki kona formaður áfram. Við skiptum því með okkur og ég verð dyggur liðsmaður bæði sem ráðherra fram að kosningum og síðan sem oddviti í mínu kjördæmi og mun styðja Samfylkinguna og leggja alla mína vinnu sem ég get í góðan árangur.“

Guðbjartur Hannesson flytur ræðu eftir að formannskjöri hafði verið lýst …
Guðbjartur Hannesson flytur ræðu eftir að formannskjöri hafði verið lýst í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert