Ekki ljóst hvað fór úrskeiðis

Sagt er frá banaslysinu víða í bandarískum fjölmiðlum.
Sagt er frá banaslysinu víða í bandarískum fjölmiðlum. Skjáskot/Fox Tampa Bay

Mennirnir sem létu lífið í fallhlífarstökki í Flórída í gær voru í sínu þriðja stökki þegar slysið varð. Annar maðurinn var þrautþjálfaður fallhlífarstökkskennari með þúsundir stökka að baki en hinn var nýliði og hafði aðeins stokkið nokkrum sinnum, samkvæmt því sem fram kemur í bandarískum fjölmiðlum.

Báðir voru í hópi íslenskra fallhlífarstökkvara sem fór í æfingaferð til Flórída fyrr í vikunni. Hópurinn er frá íslenska fallhlífarstökksfélaginu Frjálsu falli, en er á vegum fyrirtækisins Skydive City í borginni Zephyrhills í Tampa í Flórída.

Mikill vindur var á svæðinu

22 manna hópur fór í loftið klukkan 10 á laugardagsmorgni en aðeins 20 skiluðu sér aftur í hús. Eftir tæplega átta klukkustunda leit fundust lík mannanna tveggja sem var saknað í gærkvöldi, í nágrenni við flugvöllinn í borginni, samkvæmt því sem fram kemur á vef dagblaðsins Tampa Bay Times.

Dagblaðið Star Tribune í Minneapolis segir að þetta hafi verið þriðja stökk mannanna síðan þeir komu til Flórída. 

Ekki liggur fyrir hvað fór úrskeiðis í slysinu en Melanie Snow, talsmaður lögreglu í Pasco-héraði, segir að verið sé að rannsaka hvort fallhlífar þeirra hafi opnast með réttum hætti. Mennirnir munu ekki hafa stokkið fastir saman en fylgdust þó að. Mikill vindur var á svæðinu sem m.a. tafði leit.

Tampa Bay Times hefur eftir reyndum fallhlífarstökkvara í Flórída, Frank Van Gelder, að almennt opni stökkvarar fallhlífina í um 900 metra hæð. Virki hún ekki rétt eigi að vera fyrir hendi öryggisbúnaður til að losa aðalfallhlífina og í rúmlega 200 metra hæð eigi varafallhlíf að opnast.

Ekki fyrsta banaslysið

Fallhlífarstökk er afar vinsælt í Zephyrhills og slys eru fátíð en þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem banaslys verður.

Í janúar 2012 lést kona sem stökk í fallhlíf á vegum sama fyrirtækis, Skydive City. Konan, sem var sextugur læknir og vanur fallhlífarstökkvari, lenti í vandræðum með fallhlífina samkvæmt frétt Tampa Bay Times frá 2012.

Tveimur árum fyrr, í janúar 2010, lést sjötugur karlmaður af áverkum sem hann hlaut eftir harkalega lendingu í fallhlífarstökki á vegum Skydive City. Samkvæmt frétt Tampa Bay Times frá árinu 2010 varð kröftug vindhviða sem reif í fallhlífina til þess að hann náði ekki að lenda rétt.

Árið 2008 létust tveir fallhlífastökkvarar á vegum Skydive City. Annar þeirra var 45 ára gamall Finni sem missti meðvitund í miðju stökki og féll stjórnlaust til jarðar. Hin var 48 ára bandarísk kona sem skall saman við annan stökkvara í loftinu og lést af áverkunum.

Frétt mbl.is: Íslendingar létust í fallhlífastökki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert