„Engar formlegar viðræður í gangi“

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar

„Það eru engar formlegar samningaviðræður í gangi um kaup einhverra aðila á bönkunum.“ Þetta sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en nefndin ræddi í dag stöðu mála gagnvart bönkunum. Helgi segir ósennilegt að gengið verði frá sölu á hlut í bönkunum fyrir kosningar.

„Úrlausn á þessum stóru þrotabúum bankanna er svo risavaxin í okkar litla efnahagslífi að það er algerlega nauðsynlegt að fá heildarlausn á því hvernig farið er með krónueignir búanna og eignarhald á bönkunum. Við erum ekki í neinum færum til að afhenda mönnum gjaldeyrir fyrir öllum krónueignunum sem þarna eru inni og það er alveg ljóst að það mun ekki takast að leysa úr þessum málum fyrr en það eru orðnar eitthvað raunhæfar væntingar manna um endurheimtur,“ segir Helgi.

Fram hefur komið í umræðum um bankana, að sumir óttist að teknar verði ákvarðanir um sölu bankanna skömmu fyrir þingkosningar. „Það er orðið ákaflega skammt til kosninga og telja verður fremur ósennilegt að það gerist mikið í þessum málum fram að því. Það er hins vegar mikilvægt að menn vinni áfram í þessum málum. Það hefur verið gott hvað það hefur verið tekist góð þverpólitísk samstaða um það í nefndinni hjá okkar. Þarna eru svo miklir þjóðhagslegir hagsmunir í húfi, að þetta verður að vera hafið yfir flokkadrætti,“ segir Helgi.

Eignarhlutir ríkisins ekki seldir í ár

Eigendur Íslandsbanka og Arion banka eru að stærstum hluta skilanefndir gömlu banakanna, en ríkið er stærsti eigandi Landsbanka.  Umræður á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun snerust fyrst og fremst um eignarhlut skilanefndanna. Ríkið hefur hins vegar líka markað þá stefnu að selja sinn hlut. Í fjárlögum þessa árs var upphaflega gert ráð fyrir að hlutafé í bönkunum yrði selt á þessu ári, en á síðustu stundu var þessu breytt með þeim hætti að bankarnir greiddu um 12 milljarða arðgreiðslu í ríkissjóð.

Í fjárlögum þessa árs er ekki að finna formlega heimild til fjármálaráðherra til að selja eignarhluti ríkissjóðs í bönkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka