Hóta að kæra til eftirlitsstofnunar EFTA

mbl.is/Sigurður Bogi

Hætta er á að frelsi í flutningi flugfarþega með rútum um Reykjanesbraut verði afnumið og einu fyrirtæki veitt einkaleyfi á að flytja farþega  til og frá Leifsstöð að afloknu útboði Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa mótmælt þessu harðlega og hvatt Samkeppniseftirlitið til að skerast í leikinn. Að öðrum kosti verði málið kært til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem SA og SAF telja að um sé að ræða brot á grundvallarreglum evrópsks samkeppnisréttar, samkvæmt því sem fram kemur á vef SA.

Samtökin benda á að ekki sé þörf á að bjóða aksturinn út þar sem neytendur geti nú þegar valið á milli tveggja ferðaþjónustufyrirtækja og akstur á leiðinni sé arðbær. Virk samkeppni sé til staðar.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að  Samkeppniseftirlitið telji að útboðið muni hafa skaðleg áhrif á samkeppni og hafi óskað eftir því að opinberir aðilar hætti afskiptum sínum af akstri á leiðinni. SSS ætlar ekki að verða við því, telur sér skylt að bjóða aksturinn út samkvæmt samningi við Vegagerðina. Til stendur að undirrita samninga við lægstbjóðanda.

SSS hefur ákveðið að meðalfargjald fyrir aðra leið verði kr. 1.950 en kr. 3.500 fyrir báðar leiðir. SSS ætlar sér að síðan að taka til sín 35% af uppgefnu meðalfargjaldi.

„SA og SAF hafa áhyggjur af fordæminu sem útboðið gefur og spyrja sig hvað gerist næst, hvort boðinn verði út akstur á Gullna hringnum, til Gullfoss, Geysis og Þingvalla?

Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA, sem segir að með útboðinu sé algjörlega farið gegn markmiðum samkeppnislaga. Samkeppni hafi verið til staðar á þessari leið og engin þörf sé á inngripum:

 „Ég sé ekki betur en að þetta vinni þvert gegn skilvirkri samkeppni á markaðnum. Hér er gripið inn í með sérleyfi og skattlagningu á þessa flutningsleið, sem er að okkar mati ólögmæt. Það er líka spurning hvar menn ætla að draga mörkin," segir Þorsteinn.

Hann segir flutningsleiðina arðbæra og hún þurfi því ekki styrk frá ríki eða sveitarfélögum. Miðað við hvernig útboðið sé sett upp snúist málið orðið meira um skattheimtu til sveitarfélaganna heldur en verð til notandans.

Þorsteinn segir SA telja Samkeppniseftirlitið túlka heimildir sínar mjög þröngt, þegar það segist ekki geta gripið til beinna aðgerða þar sem um sérlög sé að ræða. Ólíðandi sé ef stjórnvöld geti með sérlögum sneitt framhjá grundvallarreglum samkeppnisréttar.

„Við teljum að Samkeppniseftirlitið ætti að láta reyna á svona grundvallarmál. Þarna er verið að gefa hættulegt fordæmi. Ef ekkert verður að gert þá teljum við eðlilegt að láta reyna á þetta fyrir dómstólum. Þarna er verið að ganga þvert á markmið samkeppnislaga," segir Þorsteinn, og bendir á að þarna sé verið að draga úr hagkvæmni flutninganna og hvata til fjárfestinga og nýsköpunar. Á endanum muni fyrirkomulagið leiða af sér lakara þjónustustig og rýra getu ferðaþjónustunnar til að laða fleiri ferðamenn til landsins,“ segir á vef SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert