Ekki skipuð pólitískum fulltrúum

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er alveg skýrt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það verði gert hlé á þessum viðræðum og það þýðir að það verði gert hlé og alvöru hlé. Það þýðir að menn munu ekki halda áfram þessum viðræðum sem nú hafa tekið mjög langan tíma miðað við þær forsendur sem lagt var af stað með.“

Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartra framtíðar, sem spurðist fyrir um það hvort ríkisstjórnin myndi styðja þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna um inngöngu í Evrópusambandið. Gunnar Bragi minnti á að til stæði að gera úttekt á málinu auk þess sem hann væri á leið til Brussel til þess að ræða við forystumenn sambandsins og gera þeim grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu en ráðherran fer utan á morgun.

Guðmundur sagði svar Gunnars Braga loðið og sagðist allt eins geta skilið það þannig að til greina kæmi að halda viðræðunum við Evrópusambandið áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar án þess að boða til þjóðaratkvæði sem væri fagnaðarefni að hans mati. Gunnar Bragi sagðist hins vegar geta upplýst Guðmund um það að viðræðum um inngöngu í sambandið yrði ekki haldið áfram á meðan hann sæti í stól utanríkisráðherra.

Hugsanlega leitað til erlendra aðila

Árna Þór Sigurðssyni, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði Gunnar Braga að því hvernig yrði haldið á Evrópumálunum af hálfu ríkisstjórnarinnar og þá einkum varðandi boðaða úttekt á stöðu viðræðnanna um inngöngu í Evrópusambandið. Vildi hann vita hvort haft yrði samráð við utanríkismálanefnd í þeim efnum og stjórnarandstöðuna.

„Ég geri ekki ráð fyrir því að þetta verði nefnd sem verði skipuð pólitískum fulltrúum sem muni vinna þessa úttekt. Ég hyggst leita eftir sérfræðingum á ýmsum sviðum til þess að fara í gegnum þetta. Er jafnvel að skoða hvort það eru erlendar stofnanir sem geta komið að þessu með einhverjum hætti, einhverjar fræðistofnanir eða eitthvað slíkt. Það er svona sú hugsun sem er í gangi,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við: „Ég vil hins vegar að það komi fram að það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um þetta. Það er verið að vega þetta og meta. Það er mikilvægt að vanda til verka.“

Ráðherrann sagði að meðal þess sem tekið yrði til skoðunar í úttektinni í samræmi við stjórnarsáttmálann væri staðan innan Evrópusambandsins, hvernig sambandið hefði þróast og hvernig það væri líklegt til þess að þróast til framtíðar. Það væri til að mynda ljóst að Evrópusambandið væri ekki sama sambandið í dag og það hefði verið þegar sótt var um inngöngu.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert