Býr við mikla óvissu hér á landi

Lika Korinteli.
Lika Korinteli. Mbl.is/Eggert

„Ég veit ekki hvernig þetta fer, þau segjast alltaf ætla að svara eftir ákveðinn tíma, en síðan dregst það,“ segir Lika Korinteli, georgísk kona sem sótti um hæli hér á landi árið 2005. Umsókninni var synjað og bíður umsókn hennar um dvalarleyfi af mannúðarástæðum nú hjá innanríkisráðuneytinu. Samkvæmt upplýsingum þaðan mun svarið berast Liku fyrir áramót.

Toshiki Toma, prestur innflytjenda, greindi frá máli Liku í aðsendri grein í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag. Vegna sérstakra aðstæðna getur Lika ekki framvísað þeim gögnum sem Útlendingastofnun krefst frá hælisleitendum, en allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu. Lika hefur unnið hér á landi og greitt skatta frá árinu 2006 en hefur ekki aðgang að velferðarkerfinu, ekki einu sinni sjúkratryggingakerfinu. Hún getur hvorki öðlast ökuréttindi né sótt um bankalán þar sem hún hefur ekki lögheimili hér á landi.

Getur ekki leyft sér að hugsa um framtíðina

Að sögn Liku hefur biðin eftir svari tekið á. „Ég veit ekki hvernig ég má haga mér, ég veit ekki hvað ég get gert við líf mitt,“ segir Lika. Hún búi við mikla óvissu og geti ekki leyft sér að hugsa um framtíðina á meðan hún veit ekki hvernig mál hennar mun þróast. Hún reyni þó vissulega að vona það besta og vonast eftir jákvæðu svari sem fyrst.  „Ég veit ekki hver mistök mín voru, hvað ég gerði rangt, kannski hegðaði ég mér mjög illa.“ Lika segist ekki vita hvernig mál hennar muni þróast, fái hún ekki dvalarleyfi hér á landi.

Lika segist hafa fengið afar jákvæð viðbrögð eftir að grein Toshiki birtist í Morgunblaðinu og fólk hafi sýnt sögu hennar áhuga. „Sumir vissu ekki að ég væri í þessari erfiðu stöðu,“ segir Lika. „Sumir segjast ekki skilja af hverju ég hef ekki fengið dvalarleyfi nú þegar.“ Hún segist afar þakklát fyrir góða vini og samstarfsfélaga hér á landi sem geri sitt besta til að styðja við bakið á henni.

Fer ekki til læknis þó hún finni til

Eins og kom fram hér að ofan hefur Lika ekki sömu réttindi og flestir aðrir hér á landi vegna stöðu sinnar. „Ég borga skatta, nýti ekki félagslega þjónustu og hef ekki brotið af mér,“ segir Lika. Þar sem hún hefur ekki aðgang að sjúkratryggingakerfinu þarf Lika að greiða mun hærri upphæðir fyrir lyf og læknisaðstoð en flestir. Hún segist ekki leita til læknis ef útlit er fyrir að heimsóknin verði mjög kostnaðarsöm.

Aðspurð segir Lika að sú staða hafi oft komið upp að hún leiti einfaldlega ekki læknishjálpar. „Ef ég finn til í bakinu, þá leita ég ekki til læknis,“ segir hún. „Ég vona að þeir láti mig ekki deyja, verði ég svo veik að ég þurfi á aðgerð að halda en hafi ekki efni á að greiða fyrir hana.“ Þó ástandið sé vissulega ekki gott núna, þá hefur Lika áhyggjur af framtíðinni. „Þegar ég verð gömul og veikari, þá veit ég ekki hvernig þetta verður,“ segir hún. „Nú reyni ég að gera allt til að halda góðri heilsu, fer í sund og hreyfi mig.“

Lika segist umfram allt vilja varanlegt dvalarleyfi hér á landi. „Ég vil sækja um ríkisborgararétt og búa hér það sem eftir er,“ segir hún. „Ég valdi þetta land vegna þess að ég vil búa hér alla ævi. Mér líkar vel við landið,“ segir Lika.

Frétt mbl.is: Lika fær svar fyrir áramót

Frétt mbl.is: Ríkisfangslaus og án réttinda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert