Þarf ekki að sjá kvalara sína

Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason.
Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Stefán Logi Sívarsson, Stefán Blackburn, Davíð Freyr Magnússon, Hinrik Geir Helgason og Gísli Þór Gunnarsson víki úr dómsal á meðan fórnarlamb þeirra gefur skýrslu við aðalmeðferð í máli á hendur þeim eftir helgi.

Fórnarlambið krafðist þess að mönnunum yrði vikið úr salnum þar sem það væri honum afar þungbært að gefa skýrslu að þeim viðstöddum. Einnig lagði hann fram vottorð sálfræðings sem hann hefur leitað til vegna andlegrar vanlíðunar sem hann rekur til ákæruefnisins. Hann kvaðst hafa fengið áfallahjálp í kjölfar þess sem um getur í ákæru.

Í vottorði sálfræðings kemur fram að brotaþoli hafi upplifað talsverða vanlíðan sem birtist í kvíða, depurð og angist. Þá sæki minningar um atburðinn á hann og komi honum í uppnám og aukist þetta eftir því sem nær dregur aðalmeðferð.

Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til forsendna héraðsdóms. Í þeim forsendum segir að samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 geti dómari, að kröfu ákæranda eða vitnis, ákveðið að ákærða verði vikið úr dómsal meðan vitnið gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.

Samkvæmt ákærunni sé ákærðu gefið að sök að hafa svipt brotaþola frelsi, beitt hann ólögmætri nauðung og staðið að sérstaklega hættulegri líkamsárás á hann.

„Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar lagagreinar og verður því orðið við kröfunni eins og í úrskurðarorði greinir. Þess verður gætt við aðalmeðferð að ákærðu geti fylgst með skýrslutökunni af brotaþola um leið og hún fer fram og spurningar verði lagðar fyrir hann eftir því sem þeim þyki tilefni til.“

Aðalmeðferð í málínu hefst á mánudag og stendur yfir í þrjár daga. Stefán Logi, Stefán Blackburn, Davíð Freyr, Hinrik Geir og Gísli Þór eru ákærðir fyrir þrjár stórfelldar líkamsárásir auk þess sem Stefán Logi er ákærður fyrir að hóta að drepa barnsmóður sína og föður hennar.

Meðal annars notuðu mennirnir skæri og heimatilbúinn hníf eða rakvélablað til að stinga eitt fórnarlambið í höfuðið og klippa í eyrun á því. Annað fórnarlamb var afklætt, sprautað rakspíra á bringuna á því og kveikt í. Árásarmennirnir gerðu svo það sama við kynfæri mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert