Með fingurinn á púlsinum

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga

„Við erum bara að reyna að vera með fingurinn á púlsinum,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en fundað var í nefndinni í morgun um stöðu mála í Úkraínu. Aukafundur fór fram um málið í nefndinni í gær með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og var honum fram haldið í morgun.

Tveir gestir komu fyrir utanríkismálanefnd í morgun; Jón Ólafsson prófessor, sem þekkir vel til í Rússlandi, og fulltrúi utanríkisráðuneytisins. „Við funduðum með ráðherranum í gær en það er ljóst að margt hefur gerst síðan þá. Það sem var kannski mest áríðandi var að fá upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um samskipti íslenskra stjórnvalda við ráðmenn í bandalags- og nágrannaríkjum um viðbrögð. Það er allt sama í farvegi getum við sagt.“

Birgir segir að utanríkismálanefnd fylgist síðan áfram með málinu. „Að sjálfsögðu. Þetta er náttúrlega atburður af því tagi að svona ástand hefur ekki skapast í Evrópu í 15 ár. Þannig að hættan á því að hlutirnir fari úr böndunum er auðvitað gríðarlega mikil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert