Mikil endurnýjun gagnrýnd

Framboðslisti sjálfstæðismanna í Garðabæ vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor hefur verið talsvert gagnrýndur en hann var samþykktur á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í bænum í gærkvöld. Gagnrýnin hefur einkum verið á þeim forsendum að gengið hafi verið full langt í að endurnýja listann.

Listinn var lagður fram af uppstillingarnefnd en ákveðið var að fara leið uppstillingar í desember síðastliðnum í stað prófkjörs vegna ákveðinnar óánægju með síðarnefndu leiðina. Meðal annars með tilliti til kynjaskiptingar og endurnýjunar. Nokkuð góð samstaða mun hafa verið um þá leið á fundi fulltrúaráðsins í desember. Gagnrýnin nú er tvískipt. Fyrir það fyrsta er óánægja með þá miklu endurnýjun sem er á listanum. Tveimur bæjarfulltrúum, sem verið hafa aðalmenn undanfarin tvö kjörtímabil, Páli Hilmarssyni og Stefáni Konráðssyni, voru boði tvo af neðstu sætum listans sem þeir höfnuðu. Um er að ræða tvö af svokölluðum heiðurssætum sem gjarnan eru skipuð fólki sem eru á leið út úr stjórnmálum.

Einum bæjarfulltrúa, Sturlu Þorsteinssyni sem verið hefur aðalmaður á því kjörtímabili sem er að ljúka, var hins vegar boðið áttunda sætið á listanum sem gæti mögulega orðið baráttusæti miðað við skoðanakannanir en þykir þó ólíklegt að skila aðalmanni í bæjarstjórn. Það sæti þáði Sturla ekki. Eins og staðan er í dag eru sjö bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Garðabæjar og af þeim hafa sjálfstæðismenn fimm. Vegna sameiningar Garðabæjar og Álftaness á síðasta ári fjölgar bæjarfulltrúum á næsta kjörtímabili hins vegar í ellefu. Rökstuðningur uppstillingarnefndar mun hafa verið á þá leið að tvö kjörtímabil væru hæfilegur tími.

Samkvæmt heimildum mbl.is snýr gagnrýnin ekki síst að því að Sturlu hafi ekki verið boðið sæti ofar á listanum. Einungis einn af fimm sitjandi bæjarfulltrúum sjálfstæðismanna er ofarlega á framboðslista sjálfstæðismanna, Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem er í öðru sæti. Hún hefur líkt og Sturla setið í bæjarstjórn á því kjörtímabili sem er að ljúka. Erling Ásgeirsson, fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna, tók ákvörðun síðastliðið haust um að gefa ekki aftur kost á sér og vermir neðsta sæti listans, heiðurssætið. 

Hinn hluti þeirra gagnrýni sem komið hefur á framboðslistann er hins vegar vegna sameiningar Garðabæjar og Álftaness á síðasta ári. Óánægju hefur þannig gætt með hlut sjálfstæðismanna á Álftanesi á listanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert