Klukkan tifar í kjaradeilu kennara

Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og samninganefnd ríkisins hafa fundað stíft um helgina og munu funda áfram fram á kvöld. Klukkan tíu verður gefið út mat á stöðu mála. Formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum segir nokkuð hafa miðað áfram í dag.

Klukkan 17 hófst fundur í Kennarahúsinu þar sem samninganefnd framhaldsskólakennara gerir hinni svokölluðu stóru samninganefnd grein fyrir stöðu mála og að því búnu hefjast aftur fundir í húsnæði ríkissáttasemjara. 

„Við funduðum hjá ríkissáttasemjara í morgun og síðan hófust fundir smærri hópa þar sem unnið var að tilteknum verkefnum og ákveðnum úrlausnarmálum,“ segir Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum. Hann segist ekki geta gefið miklar upplýsingar um hvaða úrlausnarmál og verkefni sé um að ræða. „En við vitum svo sem ekkert hvernig þetta endar. Það hefur verið gefið út að það verði fundað til kl. 22 í kvöld. Það gæti hugsanlega verið lengur, en við ætlum ekki að vera hérna fram eftir nóttu, nema við höldum að við séum að fara að klára málið.“

Hefur ykkur miðað áfram í dag? „Já, það er óhætt að segja það. En hvort það dugar til að semja, það er ekki hægt að segja til um það á þessari stundu.“

Hvað með alla þá framhaldsskólanemendur sem bíða þess að mál skýrist, hvenær fá þeir að vita hvort þeir muni eiga að mæta í skólann á morgun? „Það verður gefin út yfirlýsing í kvöld, það er alveg ljóst. En það liggur ekki fyrir klukkan hvað það verður, líklega um tíu-leytið.“

Náist ekki samkomulag í dag hefst verkfall framhaldsskólakennara á morgun í öllum framhaldsskólum landsins, nema Verzlunarskóla Íslands. 

Ráðherra vonar að samningar náist

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist vona að samningar náist. „Auðvitað vona ég það eins og allir að það takist að klára samningana. Ef það tekst ekki þá auðvitað vonum við öll að það líði ekki langur tími þar til samkomulag næst og ég veit að samninganefndirnar hafa lagt mikið á sig til að ná saman,“ sagði Illugi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert