Síðasta verkfall stóð í átta vikur

Margir nemendur óttast að hugsanlegt verkfall verði langt.
Margir nemendur óttast að hugsanlegt verkfall verði langt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningamenn framhaldsskólakennara og ríkisins setjast niður á samningafund í hádeginu og reiknað er með fundi fram á kvöld. Verkfall hefst í öllum framhaldsskólum landsins í fyrramálið nema Verzlunarskóla Íslands, hafi ekki tekist samningar fyrir þann tíma.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, vill ekkert tjá sig um gang viðræðna. Samningamenn hafi setið á fundi í gær og haldið verði áfram í dag. Hún segir að stór samninganefnd kennara komi saman til fundar síðdegis til að fara yfir stöðuna.

Ekki boðað verkfall í Versló

Um 25.000 nemendur eru skráðir í framhaldsskóla landsins. Hluti þeirra sem eru skráðir er ekki í virku námi. Í Verzlunarskólanum eru um 1.800 nemendur og þar hefur ekki verið boðað verkfall. Það má því reikna með að hugsanlegt verkfall raski námi rúmlega 20 þúsund nemenda.

Sérstakur samningur er á milli ríkisins og Verzlunarskóla Íslands og rennur hann ekki úr gildi fyrr en 31. maí nk. Kennarar í Versló greiddu því ekki atkvæði um hvort þar ætti að boða til verkfalls.

Um 1.800 félagsmenn eru í Félagi framhaldsskólakennara.

Síðustu tvö verkföll stóðu í 6 og 8 vikur

Síðustu tvö verkföll í framhaldsskólunum urðu löng. Árið 1995 boðuðu framhaldsskólakennarar til verkfalls 17. febrúar og það stóð í sex vikur. Árið 2000 var aftur boðað til verkfalls og það stóð frá 7. nóvember til 7. janúar árið eftir, eða í átta vikur.

Framhaldsskólakennarar hafa ekki farið í verkfall frá árinu 2000.

Grunnskólakennarar fóru í verkfall 20. september 2004. Verkfallið var stöðvað með bráðabirgðalögum 13. nóvember sama ár. Það stóð því í rúmlega 7 vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert