„Kaótískar ákvarðanir fólks í vímu“

Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið …
Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið fyrir.

„Þetta voru kaótískar ákvarðanir fólks í vímu. Það var ekkert plan. Þetta mál allt er kaótískt,“ sagði Stefán Karl Kristjánsson, verjandi manns sem ákærður er fyrir að hafa í félagi við annan ráðist á 38 ára karlmann en sá taldi sig hafa keypt kynlífsþjónustu af kvenmanni.

Stefán Karl krafðist sýknu fyrir hönd skjólstæðings síns í Héraðsdómi Reykjavíkur en þá hélt aðalmeðferð málsins áfram. Hann sagði skjólstæðing sinn engan þátt hafa átt í árásinni. Vísaði hann þar til framburðar vændiskaupandans sem viðurkenndi fyrir dómi í byrjun mánaðar að aðeins annar maðurinn hefði haft uppi hótanir og ógnandi tilburði. Sá, Gísli Þór Gunnarsson, skar einnig manninn tvívegis á háls og hefur játað sína háttsemi. Ennfremur vísaði Stefán Karl til þess að vændiskaupandinn hafði eftir að hafa gefið framburð við aðalmeðferðina dregið bótakröfu á hendur skjólstæðingi sínum til baka. Það sé hrein og klár staðfesting á sakleysi mannsins.

Auk þess vísaði Stefán Karl til framburðar Gísla Þórs þar sem hann sagði hinn manninn ekkert hafa vitað um fyrirætlan sína. Hann hafi ekki vitað að Gísli var með hníf. 

Líkti þessu við fíkniefnaviðskipti

Í málinu eru mennirnir tveir ákærðir fyrir að hafa ráðist á 38 ára gamlan karlmann og skorið hann á háls. Þeir eru einnig ákærðir, ásamt ungri konu, fyrir fjársvik. Í ákæru segir að þau hafi sett auglýsingu í dagblað um kynlífsþjónustu og hitt karlmann sem svaraði auglýsingunni. Í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var stal konan fjörutíu þúsund krónum af vændiskaupandanum. Mennirnir hafi í kjölfarið ráðist á vændiskaupandann og ætlað að ræna hann.

Mestu púðri við aðalmeðferðina og fyrir hana hefur verið varið í fjársvikin. Verjendur kröfðust þess í síðasta mánuði að þessum ákærulið yrði vísað frá en því var hafnað. Í stað þess krefjast verjendur að fólkið verði sýknað af þessum ákærulið og bera að mestu fyrir sig sömu rökum, að vændisviðskipti njóti ekki verndar réttarvörslukerfisins og því sé ekki hægt að dæma þau til refsingar fyrir að efna ekki þau viðskipti.

Jóhanna Sigurjónsdóttir, verjandi konunnar, líkti þessu við fíkniefnakaup og spurði hvort fíkniefnaneytendur geti þá leitað til lögreglu fái þeir ekki efni sem þeir hafa greitt fyrir. Varla njóti aðeins vændiskaupendur verndar en ekki kaupendur fíkniefna. „Þeir sem eru sviknir í viðskiptum af þessu tagi eiga að bera hallan af því sjálfir,“ sagði Jóhanna og spurði hvaða skilaboð væri verið að senda vændiskaupendum. Hún sagði þau skýr og snúa að því að stúlkum í vændi verði refsað ef þær sinna ekki kynlífsþjónustu.

Enginn samningur um kynlífsþjónustu

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sagði varnirnar áhugaverðar. Hann telji engu að síður að þarna sé verið að blanda saman tveimur hlutum. Það hafi ekki komist neinn samningur á um vændi. Fari svo að dómurinn fallist á að þarna hafi verið um samning að ræða og þá vanefnd á honum beri dóminum að sýkna fólkið af ákæru um fjársvik. „En þetta voru fjársvik,“ sagði Helgi Magnús og að sakfelling sé ekkert tæki fyrir vændiskaupendur til að fylgja eftir kaupum á vændi. Það sé af og frá.

Í þessu máli sé vændi aðeins notað sem yfirvarp til að svíkja fé út úr fólki. Það hafi aldrei staðið til að veita þessa þjónustu heldur hafi verið ákveðið að nota vændi sem yfirvarp til að svíkja fé út úr manninum sem taldi sig vera að kaupa hana. Ásetningur hafi staðið til að blekkja og hafa fé af manninum og því komi ekki til skoðunar að eina leiðin til að komast undan refsingu hafi verið að veita þjónustuna.

Hann sagði einnig að það hefði ekki verið bent á neinar lagaheimildir sem leiða geti til þess að háttsemin sé ekki refsiverð. Það sé ekki til staðar heimild til að nota refsiverða háttsemi við fjársvik, sér að refsilausu.

Helgi Magnús fór fram á tveggja ára fangelsi yfir Gísla Þór, sex til átta mánaða fangelsi yfir hinum manninum og 30 daga skilorðsbundna refsingu yfir ungu konunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert