Öryggismál að landinu sé ekki lokað

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innanríkisráðuneytið hefur unnið frumvarp að lagasetningu á yfirvofandi allsherjarverkfall flugvallarstarfsmanna, sem að óbreyttu mun hefjast kl. 4 í nótt. Afgreiða þyrfti málið á Alþingi í dag ef stöðva á verkfallið en ekki hefur verið endanlega ákveðið hvort það verði gert.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í dag ljóst að allsherjarverkfall flugvallarstarfsmanna geti ekki staðið lengi, ef af því verður. Samtökum atvinnulífsins reiknast til að kostnaður þjóðarbúsins við verkfallið muni hlaupa á a.m.k milljarði á dag.

Gefa þeim tækifæri á að semja

Það væri ábyrgðarleysi af okkur að vera ekki búin að hugsa málið og fara yfir það í ríkisstjórninni. Það mun margt neikvætt gerast ef landið lokar. Það er öryggismál, hagsældarmál og skiptir miklu máli en ég vil þó taka fram að við viljum gefa aðilum tækifæri til þess að klára samningaviðræðurnar og vonum að fólki takist að leysa þetta,“ sagði Hanna Birna. 

Ríkisstjórnin ræddi áhrif verkfallsins á löngum fundi sem hófst kl. 10 í morgun, þar sem Hanna Birna fór yfir stöðu mála. Að fundinum loknum sat hún áfram með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og ræddi málið þar til nú fyrir stundu að hún yfirgaf stjórnarráðið og ræddi stuttlega við fréttamenn, án þess þó að segja af eða á um mögulega lagasetningu.

Ef til verkfalls kemur þá mun það hefjast klukkan 04:00 í nótt. Hanna Birna sagðist ekki geta gefið neina tímaáætlun um það hvenær hægt yrði að samþykkja lög til þess að stöðva verkfallið. 

„Það er alveg ljóst að við getum ekki í langan tíma unað því að landið sé lokað. Ég get þó ekki tjáð mig um það hvenær slík lög yrðu samþykkt en það sér hver heilvita maður að margi dagar af svona ástandi fyrir eyju eins og Ísland, það væri ábyrðgaleysi.

Tæplega sólarhringslöngum samningafundi í Isavia-deilunni lauk kl. 7 í morgun án árangurs. Ekki hefur enn verið boðaður framhaldsfundur í dag en líklegt má telja að gerð verði lokatilraun til að semja. 

Á embætti ríkissáttasemjara fengust þó þær upplýsingar í morgun að til lítils sé að boða annan fund hafi afstaða manna ekkert breyst frá því þeim síðasta var slitið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert