Rekinn fyrir minna fé en í nágrannalöndum

Gestir ársfundar Landspítalans rýna í ársskýrsluna.
Gestir ársfundar Landspítalans rýna í ársskýrsluna. mbl.is/Eva Björk

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala, segir að spítalinn sé rekinn fyrir mun minna fé en stór sjúkrahús í nágrannalöndum okkar. Fram kom í máli hennar á ársfundi spítalans, sem fram fór á Hótel Nordica í dag, að hver lega sjúklings á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, væri að jafnaði 58% dýrari en á Landspítala.

María kynnti jafnframt uppgjör spítalans fyrir árið 2013.

Rekstur spítalans var afar erfiður á fyrra en tekjuhalli á rekstrinum nam 1.484 milljónum króna. Fjárheimildir og sértekjur hans námu 43.809 milljónum króna og heildargjöld um 45.293 milljónum króna.

Á milli áranna 2012 og 2013 hækkuðu heildarrekstrargjöld spítalans um 11,3% á verðlagi hvors árs. Fram kom í máli Maríu að launagjöld hafi verið stærsti kostnaðarliðurinn, ríflega 70% útgjalda. Það er svipað og síðustu ár, þrátt fyrir að launagjöld hafi hækkað um 10,6% á milli ára.

Rekstrargjöld, önnur en laun, voru jafnframt tæplega 26% af heildargjöldum sem er heldur lægra hlutfall en síðustu ár.

Þá fjölgaði starfsmönnum spítalans um 1,9% í fyrra en dagvinnustöðugildum fækkaði um 0,6%. 1.292 milljónum króna var varið til tækjakaupa en það er hækkun upp á 128% miðað við árið á undan.

Má rekja hækkunina annars vegar til viðbótarfjármagns sem veitt var til tækjakaupa á fjárlögum ársins 2013 og hins vegar til gjafafjár. María sagði að stefnt væri að hallalausum rekstri á þessu ári, 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert