Skyndilega orðinn aðalmaður í málinu

Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans.
Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans. mbl.is/Þórður

Lárus Welding hafði aldrei heyrt minnst á hugtakið umboðssvik á ferli sínum sem bankamaður. Aldrei hafði hvarflað að honum eða starfsmönnum Glitnis banka að þeir væru - í störfum sínum fyrir bankann - komnir nálægt einhverjum mörkum umboðs síns. Þeir hefðu verið að taka erfiðar ákvarðanir og að vinna í einu og öllu í þágu þess sem þeir störfuðu fyrir.

Þetta kom fram í máli Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar Welding, við aðalmeðferð í hinu svokallaða Aurum-máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Óttar vísaði til vitnaskýrslu Lárusar fyrir dómi í aprílmánuði síðastliðnum. Þá sagðist Lárus hafa komið að líklega átta hundrað lánveitingum sem nefndarmaður í áhættunefnd Glitnis á þeim átján mánuðum sem hann sat í nefndinni. Nefndin tók aðeins ákvarðanir um lánveitingar fyrir einn milljarð króna eða hærri upphæð.

Á ferli sínum sem bankamaður hefði hann aldrei heyrt minnst á umboðssvik, þrátt fyrir að lögfræðingar hefðu setið á öllum þeim nefndarfundum þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar.

Lárus tók við starfi forstjóra Glitnis í aprílmánuði árið 2007.

Lánveitingin samþykkt á milli funda

Málið snýst sex milljarða króna lánveitingu Glitnis banka til eignarhaldsfélagsins FS38 í júlímánuði árið 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 á 25,7% hlut í Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, í Aurum Holdings Limited.

FS38 var að fullu í eigu Pálma.

Þeim Lár­usi Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is, Jóni Ásgeiri Jó­hann­es­syni, ein­um aðal­eig­anda bank­ans, Magnúsi Arn­ari Arn­gríms­syni, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs, og Bjarna Jó­hann­es­syni, fyrr­ver­andi viðskipta­stjóri Glitn­is, er gefið að sök umboðssvik - eða hlut­deild í umboðssvik­um - vegna lán­veit­ing­ar­inn­ar.

Þrír meðlimir áhættunefndar bankans, Lárus, Magnús Arnar og Rósant Már Torfason, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis, samþykktu lánveitinguna á milli funda áhættunefndar í júlímánuði sumarið 2008. Gerð var grein fyrir ákvörðuninni á næsta reglulega fundi nefndarinnar, þann 9. júli, málið tekið þá fyrir og lánveitingin staðfest.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagðist fjármálastjórinn hafa verið síma- og netsambandslaus á norðanverðum Vestfjörðum þegar sex milljarða króna lánveitingin var samþykkt. Engu að síður hefði nafn hans verið við samþykktina. Hann frétti fyrst af því við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara.

„Ég var aldrei sér­stak­lega hrif­inn af þessu máli og vildi sjá aðrar út­færsl­ur,“ sagði Rósant Már fyrir dómi.

Engar vísbendingar um andstöðu

Óttar sagði að Rósant Már hefði verið sá eini í málinu sem sagðist hafa verið andsnúinn málinu. Annars hefðu engar vísbendingar verið uppi um andstöðu áhættunefndarinnar, eins og sérstakur saksóknari hefði gert mikið mál úr í ákæru sinni.

Rósant Már hefði tekið skýrt fram að hann væri ekki mótfallinn lánveitingunni vegna þess að hann teldi að brotið væri gegn lánareglum Glitnis. Hann hefði ekki heldur talið að lánveitingin rúmaðist ekki innan heimilda áhættunefndarinnar og að með lánveitingunni væri verið að brjóta gegn lögum.

„Það hvarflaði aldrei að honum að svo væri,“ sagði Óttar.

Engar blekkingar í spilinu

Helgi Birgisson, verjandi Magnúsar Arnars Arngrímssonar, sagði í málflutningi sínum í dag að Aurum-málið hefði fyrst verið rannsakað og greint sem fjársvikamál. Hins vegar hefði niðurstaða rannsakenda leitt það í ljós að málið uppfyllti ekki skilyrði fjársvika þar sem enginn hafði verið blekktur í málinu. Engar blekkingar hefðu verið í spilinu.

Umboðssvikamál hefði þess vegna verið lokaniðurstaðan. „Málið varð að ætluðu umboðssvikamáli þar sem lánveitingin var sögð vera í andstöðu við lánareglur bankans,“ sagði Helgi.

Hann sagði jafnframt að sú staðreynd að Magnús Arnar hefði verið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans hefði ekki komið málinu við. Hann væri ákærður fyrir ákvörðun sem hann kom að sem nefndarmaður í áhættunefnd bankans.

Magnús hefði haft litla aðkomu að Aurum-málinu og í raun fengið fyrst vitneskju um það aðeins þremur dögum eftir að hann tók við framkvæmdastjórastöðunni. „Skyndilega var hann, í augum saksóknara, orðinn að aðalmanni í málinu,“ sagði Helgi.

Aðalmeðferðin heldur áfram í dag og mun meðal annars Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, flytja mál sitt eftir hádegi.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari og aðstoðarkona hans í Aurum-málinu.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari og aðstoðarkona hans í Aurum-málinu. mbl.is/Þórður
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert