Ósamræmi í mati á umhverfisþáttum

Auður Magnúsdóttir, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf, á fundinum í morgun.
Auður Magnúsdóttir, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf, á fundinum í morgun. Ljósmynd/VSÓ Ráðgjöf

Ósamræmi var í mati Vegagerðarinnar annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar á áhrifum vegaframkvæmda á tiltekna umhverfisþætti á árunum 2006 til 2013. Umsagnaraðilar gáfu umhverfisáhrifum nánast aldrei einkunn samkvæmt leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og stofnunin sjálf fór ekki alltaf eftir eigin leiðbeiningum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn Auðar Magnúsdóttur umhverfisstjórnunarfræðings hjá VSÓ Ráðgjöf á mati á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda á tuttugu ára tímabili, 1993 til 2013. Rannsóknin var kynnt á fjölsóttum morgunverðarfundi sem VSÓ Ráðgjöf efndi til á Grand Hótel í Reykjavík í morgun.

Í rannsókninni, sem styrkt var af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, var skoðað hvort samræmi hafi verið í mati framkvæmdaaðila, umsagnaraðila og Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda á þessu tímabili. Jafnframt var kannað hvort umhverfisþáttum hafi verið gert jafn hátt undir höfði af þeim aðilum sem koma að matinu.

Farið var yfir 46 matsskýrslur með tilheyrandi umsögnum og úrskurðum og álitsgerðum Skipulagsstofnunar, að því er segir í fréttatilkynningu. 

Rannsóknin leiddi í ljós að á árunum 2006 til 2013 var ósamræmi í mati Vegagerðarinnar og Skipulagsstofnunar á áhrifum framkvæmda á dýralíf, gróðurfar, jarðmyndanir og landslag en hins vegar var samræmi milli þessara stofnana þegar kom að því að meta hávaða, vatnalíf, vatnafar og vatnsvernd. Þau áhrif voru oftast metin óveruleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert