Enn í lífshættu eftir árás

Sigurður Bogi Sævarsson

Maður á fertugsaldri sem liggur á gjörgæsludeild Landspítalans er enn í lífshættu eftir árás sem hann varð fyrir á Hvammstanga á laugardag. Héraðsdómari tók sér frest þar til í dag til að úrskurða hvort fjórir menn sem eru grunaðir um árásina verði látnir sæta gæsluvarðhaldi. 

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæsludeild er líðan mannsins óbreytt en hann er í öndunarvél.

Maðurinn var fluttur á Landspítalann með sjúkrabíl frá Hvammstanga á laugardagskvöldið með lífshættulega áverka sem á þeim tíma var ekki vitað hvernig væru til komnir. Grunur væri á að þeir gætu verið til komnir vegna refsiverðrar háttsemi. Lögreglan á Blönduósi hófst þegar handa við rannsókn málsins ásamt rannsóknarlögreglumönnum  frá Akureyri en málið heyrir undir lögregluna á Akureyri.

Í tengslum við rannsókn málsins voru fjórir karlmenn handteknir og eru þeir núna í fangageymslum á Akureyri. Farið var fram á það í gær að mennirnir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald en dómari við Héraðsdóm norðurlands eystra tók sér frest þar til í dag til að úrskurða í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert