Beðið eftir niðurstöðu krufningar

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Akureyri, sem rannsakar meinta líkamsárás á Hvammstanga, segir að það liggi ekki fyrir hvenær karlmaður á fertugsaldri hlaut höfuðáverka sem drógu hann til dauða. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans síðdegis á laugardag og þar tilkynnti læknir málið til lögreglu.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið staddur í gleðskap í húsi á Hvammstanga á síðastliðið föstudagskvöld. Aðspurður segir Daníel að kona hafi komið að manninum meðvitundarlausum í húsinu á sjötta tímanum síðdegis á laugardag. 

Maðurinn sem lést hét Tom­asz Grzeg­orz Krzecz­kowski, fædd­ur 31. des­em­ber 1978 og til heim­il­is á Hvammstanga. Hann hlaut þungt höfuðhögg með þeim afleiðingum að höfuðkúpan brotnaði og blæddi inn á heilann. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans aðfararnótt miðvikudags.

Fram kemur á vef RÚV að tæpur sólarhringur hafi liðið frá því meint árás átti sér stað og þar til kallað var eftir sjúkrabíl. Daníel segist ekki geta staðfest það en tekur jafnframt fram að ekki sé hægt að útiloka neitt. „Við getum ekki staðfest það að það hafi gerst þarna á föstudagskvöldinu frekar en um miðja nótt eða um morguninn. Við vitum það ekki nákvæmlega.“

Daníel tekur fram að lögreglan bíði nú eftir niðurstöðu krufningar sem muni vonandi liggja fyrir í næstu viku. Hann tekur fram að um meinta líkamsárás sé að ræða og miðist rannsóknin miðast að því að leiða í ljós hvenær, hvernig og með hvaða hætti maðurinn hlaut áverkana.

„Við erum að bíða eftir nánari upplýsingum um áverka mannsins, hvernig þeir gætu hafa til orðið,“ segir Daníel.

Þá segir hann að skýrslutökur muni halda áfram á morgun. Aðspurður segir hann engar játningar liggja fyrir í málinu.

Tveir karlmenn, sem eru á þrítugs- og fimmtugsaldri, sitja nú í gæsluvarðhaldi til sunnudags vegna málsins en þeir hafa réttarstöðu grunaðra. Daníel segir að lögreglan muni taka ákvörðun um það á morgun hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald.

Upphaflega voru fjórir menn teknir höndum en tveir þeirra voru leystir úr haldi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert