Ráðherra vill sameina tvær stofnanir

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frumvarp um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar verður lagt fram á Alþingi af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta kemur fram á vefsíðu atvinnuvegaráðuneytisins í dag. Áformin hafa verið kynnt starfsfólki beggja stofnana og drög að frumvarpinu verið send helstu hagsmunaaðilum til kynningar og samráðs.

„Markmið sameiningarinnar er að búa til öfluga rannsóknastofnun og efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni. Í kjölfar sameiningarinnar má samnýta betur mannauð, búnað og þekkingu beggja stofnana. Hjá Hafrannsóknastofnun eru um 145 stöðugildi og Veiðimálastofnun um 20 stöðugildi. Með frumvarpinu er lagt til að öllu starfsfólki beggja stofnana verði boðið starf hjá sameinaðri stofnun,“ segir ennfremur.

Þá segir að reynslan sýni að í fyrstu verði kostnaður við sameiningu umfram fjárhagslegan ávinning til lengri tíma, en unnið sé að endanlegri kostnaðargreiningu sameiningarinnar. Ennfremur sé unnið með Framkvæmdasýslu ríkisins að greiningu á húsnæðisþörf sameinaðrar stofnunar. Vísað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem meðal annars komi fram að auka eigi skilvirkni stjórnsýslunnar. Þar með talið með sameiningu stofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert