Skilja ekki vanda Landspítalans

Læknaráð Landspítala, framkvæmdastjórn spítalans og önnur fagfélög lækna hafa endurtekið …
Læknaráð Landspítala, framkvæmdastjórn spítalans og önnur fagfélög lækna hafa endurtekið bent á undanfarin ár að staðan á sjúkrahúsinu eftir langvinnt fjársvelti sé algjörlega óviðunandi fyrir sjúklinga og starfsmenn spítalans. mbl.is/Ómar

Læknaráð Landspítala lýsir yfir miklum vonbrigðum með skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar á vanda Landspítalans. Skorað er á Alþingi að endurskoða fjárlagafrumvarp næsta árs því núverandi staða sé algjörlega óviðunandi.

Stjórn læknaráðs telur ennfremur mikilvægt að hefja framkvæmdir á nýjum spítala sem fyrst, en ekkert er minnst á slíkar áætlanir í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár.

Þetta kemur fram í ályktun læknaráðs Landspítala. Hún er svohljóðandi:

„Læknaráð Landspítala lýsir enn og aftur furðu sinni og gífurlegum vonbrigðum með skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar á vanda Landspítalans, sem endurspeglast í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi fyrir árið 2015.

Eins og læknaráð Landspítala, framkvæmdastjórn spítalans og önnur fagfélög lækna hafa endurtekið bent á undanfarin ár er ljóst að staðan á Landspítala eftir langvinnt fjársvelti er algjörlega óásættanleg fyrir sjúklinga og starfsmenn spítalans. Aðbúnaður sjúklinga er óásættanlegur, eðlilegu viðhaldi og endurnýjun á tækjabúnaði spítalans er ábótavant, viðhaldi á húsnæði spítalans hefur ekki verið sinnt og atgervisflótti lækna frá spítalanum er raunveruleiki, eins og kemur fram í nýjum tölulegum upplýsingum frá Læknafélagi Íslands og Landlækni. Þetta leiðir til aukins álag á starfsmenn sem ýtir enn frekar á landsflótta þeirra lækna sem eftir eru. Nauðsynlegt er að gera Landspítala að samkeppnishæfum vinnustað fyrir lækna til að sporna gegn þeirri þróun.

Að okkar mati er þjóðarsátt um það að styrkja þessa grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem Landspítalinn er. Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans og fyrir nýjum framkvæmdum. Ekki er nægilegt að halda í horfinu heldur þarf verulega innspýtingu af fjármagni til að snúa þessari óheillaþróun við. Stjórn læknaráðs Landspítala telur mikilvægt að hefja framkvæmdir á nýjum spítala sem fyrst en engar áætlanir eru um slíkt í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015.

Læknaráð Landspítala skorar á Alþingi Íslands að endurskoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 með það að leiðarljósi að setja Landspítalann í forgang og tryggja honum nauðsynlega fjárveitingu til að hefja þá uppbyggingu sem er svo nauðsynleg starfseminni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert