Afar ólík sjónarmið komið fram

Áfengi.
Áfengi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Það kemur mér svolítið á óvart að fólk vilji koma fram með þær yfirlýsingar að það eigi að svæfa mál í nefndum. Það kemur mér svolítið á óvart að menn vilji ekki hleypa málinu úr nefnd.“ Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, um yfirlýsingar annarra nefndarmanna sem hafa sagt að þeir muni ekki standa fyrir því að frumvarp um áfengissölu verði afgreitt úr nefndinni.

Umræddir þingmenn eru Guðbjartur Hannesson, sem ræddi við Viðskiptablaðið, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem ræddi við Vísi.

Unnur Brá mótmælir því ekki að alþekkt sé að mál sofni í nefndum. „En nú erum við búin að fara yfir málið, taka alla gesti, aðrar nefndir Alþingis hafa skilað umsögnum, og þess vegna sé ég ekki alveg ástæðuna fyrir því að gera það með þetta mál. En ég sé að það eru ekki allir sammála mér,“ segir hún.

Nefndinni hafa borist fjölmörg erindi um áfengissölufrumvarpið og hún hefur tekið á móti fjölda gesta, bæði úr verslunargeiranum og heilbrigðisgeiranum. Unnur Brá segir mjög mismunandi sjónarmið uppi.

„Það voru þessi lýðheilsusjónarmið sem voru mest áberandi hjá þeim sem voru andsnúnir málinu, síðan komu fram önnur sjónarmið sem töldu að þetta [frumvarpið] ætti jafnvel bara að ganga enn lengra,“ segir hún.

Hún segir fyrrnefnd sjónarmið ekki hafa haft áhrif á afstöðu sína til málsins en fyrir liggi ákveðnar breytingartillögur sem byggi á ábendingum.

Í umsögn meirihluta velferðarnefndar um frumvarpið var lagt til að allsherjar- og menntamálanefnd léti gera mat á lýðheilsuáhrifum frumvarpsins og samfélagslegum kosnaði af þeim breytingum sem það boðar.

Spurt að því hvort þessi möguleiki hafi verið skoðaður af nefndinni segir Unnur Brá nefndir Alþingis hvorki hafa fjármagn né starfsfólk til að sinna úttektum af þessu tagi og þá telji hún ekki þörf á því. Hún segir fjölda rannsókna liggja fyrir hvað þetta varðar en menn séu hins vegar ósammála um áhrif þess að selja áfengi í verslunum.

„Það er náttúrulega búið að opna gríðarlega mikið af útsölustöðum víða um land á undanförnum árum og menn eru að vísa í það að með einfaldara aðgengi verði svo mikil aukning. En nú er búið að auka aðgengi mjög mikið á undanförnum árum í kjölfar þess að það er búið að opna fleiri sölustaði og ég sé ekki að það hafi breyst mjög mikið neyslan við það,“ segir hún.

Unnur Brá segir óvíst hvenær niðurstaða um örlög frumvarpsins muni liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert