Töpuðu gegn Íbúðalánasjóði

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Íbúðalánasjóð í máli hjóna sem höfðuðu mál gegn sjóðnum. Hjónin tóku lán hjá sjóðnum til 40 ára í janúar árið 2003 og sögðu að áætlanir þeirra um greiðslubyrði af láninu og lækkun skuldarinnar við greiðslur hafi brugðist.

Þrátt fyrir reglulegar greiðslur hafi höfuðstóll skuldarinnar og kostnaður af láninu enn fremur hækkað. Við bankahrunið árið 2008 og við þá umræðu sem þá hafi skapast hafi þau farið að telja að þessi hækkun á láninu væri óeðlileg. Í ljósi ítrekaðrar umræðu um nauðsyn þess að bregðat við vanda skuldsettra heimila hafi þau ákveðið að bíða átekta í von um úrbætur.

Eftir að annað hjónanna skráði sig í Hagsmunasamtök heimilanna varð hjónunum ljóst að í reynd væri engin önnur leið fær til þess að rétta hlut þeirra en að höfða mál gegn Íbúðalánasjóði.

Hjónin töldu algjörlega fráleitt að í greiðslumati og greiðsluáætlun sé miðað við að óbreytt verðlag þýði 0% eða engin verðbólga verði út lánstímann.Töldu þau að verðbótaþáttur láns Íbúðalánasjóðs samkvæmt fasteignaverðbréfinu hafi átt að vera inni í reiknaðri greiðslubyrði lánsins, sem fram komi í greiðslumatinu, því annars væri ekki tekið tillit til verðtryggingarnarinnar sem áskilin hafi verið í lánssamningnum.

Héraðsdómur taldi að ekki hefði komið fram í dómsmeðferðinni að vanræksla Íbúðalánasjóðs við upplýsingagjöf um lántökukostnað hefði haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni hjónanna að það gæti leitt til ógildis á ákvæði fasteignaverðbréfsins um verðtryggingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert