Var ekki komið í hendur foreldra sinna

„Fyrstu niðurstöður benda til þess að fyrirmælum hafi ekki verið fylgt varðandi viðkomandi einstakling,“ segir Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, í samtali við mbl.is en eins og fréttavefurinn greindi frá í kvöld skilaði 11 ára fötluð stúlka sér ekki heim til sín seinnipartinn í dag eftir að hún hafði nýtt sér Ferðaþjónustu fatlaðra. Hún leitaði þess í stað skjóls hjá nágrönnum í fjölbýlishúsinu sem hún býr í þar til hún fannst.

„Málið snerist um það að viðkomandi einstaklingur fór inn í húsið en var ekki afhentur foreldrum,“ segir Jóhannes. Hann segir aðspurður að þeir einstaklingar sem þurfi að nýta sér Ferðaþjónustu fatlaðra hafi mjög fjölbreyttar þarfir sem taka þurfi tillit til. Flestum þeirra fylgi einhvers konar fyrirmæli sem bílstjórar verði að lesa áður en þeir skili viðkomandi einstaklingum af sér. Miðað við fyrstu athugun virðist það hafa klikkað í þessu tilfelli.

Jóhannes segir aðspurður að í kringum klukkutími hafi liðið frá því að stúlkunni var skilað og þar til upplýsingar hafi borist um að hún væri hjá nágranna sínum. Spurður um leitina sem farið hafi í gang segir hann að haft hafi verið samband við lögreglu í samræmi við viðbragðsáætlun. Lögreglan hafi stjórnað aðgerðum sem hafi falist í því að leita í næstu húsum sem skilað hafi því að stúlkan fannst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert