„Keep calm and heia Norge“

Mótmælendur á Austurvelli hafa lagt mótmælaspjöld við þinghúsið. Á þeim …
Mótmælendur á Austurvelli hafa lagt mótmælaspjöld við þinghúsið. Á þeim stendur: „Mannréttindi? Nei + Launajafnrétti? Nei = Uppsögn? Já“. mbl.is/Styrmir Kári

Mikil orka er í mótmælendum á Austurvelli. Fjölmargir meðlimir BHM og félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru þar saman komnir en hjúkrunarfræðingar hafa sig enn sem komið er hvað mest í frammi.

Mótmælendur höfðu kyrjað „samningar“ hátt og lengi þegar þær fréttir bárust að þingfundi hefði verið frestað til hálf tvö. Þá þagnaði hópurinn í örskamma stund en fljótlega sleit hópur hjúkrunarfræðinga sig frá skaranum og gekk öruggum skrefum að Alþingishúsinu. Hópurinn hengdi skurðstofuhúfur og maska auk skilta á hurðina en mörg skiltanna vísa í mikinn spekileka úr stétt hjúkrunarfræðinga til Noregs. 

Uppátækið uppskar mikinn fögnuð meðal annarra mótmælenda og stóð hópurinn, alfarið skipaður konum í nokkra stund og kyrjaði „samningar“ fyrir utan dyrnar.

Áður en þær komu sér aftur fyrir í skaranum æpti ein, „Við gefumst aldrei upp“ og tók skarinn vel í þá staðhæfingu. Þrátt fyrir að á einu skilti við dyr Alþingis standi nú „Keep calm and heia Norge“ hafa mótmælendur engar áætlanir uppi um að slaka á fram að þingfundi.

Mótmælunum hefur hins vegar verið frestað til klukkan 13:30, þar sem þingfundi hefur verið frestað um jafnlangan tíma. Mótmælendur munu þá væntanlega snúa aftur á Austurvöll og láta í sér heyra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert