Brú lét undan í miklum vatnavöxtum

Miklir vatnavextir hafa verið í ám á Austurlandi í dag, en mikil og samfelld úrkoma hefur verið á svæðinu frá því á mánudag.

Vatnsmagn í Selá í Vopnafirði sjöfaldaðist á nokkrum klukkustundum í morgun, úr sautján rúmmetrum á sekúndu í 130. Við veiðihótel Selár í Fossgerði sópaðist nýleg göngubrú með straumnum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði sem Jón Sigurðarson, fréttaritari Morgunblaðsins á Vopnavirði, tók.

Veðurstofan sendi út viðvörun um vatnsmagn í ánum og mikla úrkomu, en einnig vegna skriðuhættu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er búist við að það dragi úr úrkomunni á morgun og þar með minnki rennsli í einhverjum ánna. Þó má gera ráð fyrir að vöxtur dvíni hægar í þeim ám sem einnig er í leysingavatn, en vatnsmagn hefur verið mikið í þeim meirihluta sumars vegna mikilla leysinga í fjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert