ESB braut gegn samningnum

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bar að halda áfram fjármögnun verkefna á Íslandi í gegnum svonefnda IPA-styrki í samræmi við samninga þar um þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi árið 2013 gert hlé á umsóknarferlinu að sambandinu. Í það minnsta hefði framkvæmdastjórnin átt að halda áfram fjármögnun verkefna sem þegar voru komin af stað.

Þetta kemur meðal annars fram í áliti umboðsmanns Evrópusambandsins vegna kvörtunar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í tengslum við fjármögnun á verkefnið „Þróun raunfærnismats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun“ á vegum hennar. Eftir að sótt hafði verið um inngöngu í Evrópusambandið á síðasta kjörtímabili samdi þáverandi ríkisstjórn um að IPA-styrkir yrðu greiddir til Íslands en yfirlýst markmið slíkra styrkja er að undirbúa umsóknarríki fyrir inngöngu með því að stuðla að aðlögun landsins að löggjöf, stöðlum og stefnum sambandsins.

Sleit viðræðunum skyndilega einhliða

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók í byrjun desember 2013 einhliða ákvörðun um að hætta fjármögnun allra IPA-verkefna hér á landi. Sumarið áður hafði framkvæmdastjórnin tilkynnt að ný verkefni sem fyrirhuguð voru yrðu ekki fjármögnuðÞá um haustið hófust viðræður á milli embættismanna utanríkisráðuneytisins og framkvæmdastjórnarinnar um það með hvaða hætti yrði staðið að málum varðandi yfirstandandi verkefni sem samningar höfðu verið undirritaðir um. Nokkrir viðræðufundir voru haldnir þar til framkvæmdastjórnin tilkynnti skyndilega þá einhliða ákvörðun sína að hætta stuðningi við öll verkefnin.

Sérstaklega er vísað í rammasamning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda í áliti umboðsmanns sambandsins og ákvæði hans um að ljúka beri yfirstandandi verkefnum komi til þess að samningnum sé sagt upp af öðrum hvorum aðila hans, en mbl.is fjallaði um mögulegt brot framkvæmdastjórnarinnar gegn rammasamningnum í desember 2013. Fram kemur í áliti umboðsmannsins að framkvæmdastjórnin hafi borið því við að ekki hafi verið réttlætanlegt að halda áfram að fjármagna IPA-verkefni á Íslandi í ljósi ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að sækjast ekki lengur eftir inngöngu í Evrópusambandið. 

Umsóknarferlið ekki forsenda styrkjanna

Umboðsmaður Evrópusambandsins hafnar því hins vegar alfarið að umsóknarferlið að sambandinu sé forsenda þess að framkvæmdastjórnin standi við rammasamninginn og aðra samninga sem af honum leiða enda sé hvergi kveðið á um slíkan fyrirvara í samningunum. Framkvæmdastjórninni hafi verið óheimilt að stöðva fjármögnun IPA-verkefna á Íslandi einhliða hvort sem litið hafi verið svo á að rammasamningurinn væri í gildi eða ekki. Hafi samningnum verið slitið beri að ljúka yfirstandandi verkefnum. Sé hann enn í gildi beri að efna hann. Lögð er áhersla á að aðilar samningsins hafi þannig fyrirfram komið sér saman um hvað tæki við yrði honum slitið.

Fram kemur í tillögum umboðsmanns Evrópusambandsins að lausn á málinu, sem settar voru fram í nóvember á síðasta ári, að ljóst sé að íslensk stjórnvöld hafi gert ráð fyrir að yfirstandandi verkefnum yrði lokið í samræmi við rammasamninginn. Svo virtist að sögn embættisins sem það hafi einnig verið afstaða framkvæmdastjórnar sambandsins lengi vel. Þannig hafi íslensk stjórnvöld til að mynda í bréfi til framkvæmdastjórnarinnar þakkað fyrir að þessum verkefnum yrði haldið áfram. Fer umboðsmaðurinn hörðum orðum um framgöngu framkvæmdastjórnarinnar í málinu. Um óásættanlega stjórnsýslu sé að ræða sem hafi grafið undan orðspori hennar og Evrópusambandinu í heild.

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert