Beint lýðræði þegar það hentar

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Gott er að taka til í eigin garði áður en kvartað er yfir rusli í garði nágrannans,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann gagnrýnir Pírata og aðra stjórnarandstæðinga fyrir að vilja einvörðungu beint lýðræði þegar það henti þeim. Vísar hann meðal annars til frumvarps sex stjórnarandstöðuþingmanna um breytingar á kosningalögum þar sem gert er ráð fyrir að kjósendur geti raðað frambjóðendum að vild.

„Tilgangurinn er að efla beint lýðræði. Gott og gilt sjónarmið. Ekki minnist ég þó áhuga þessara ágætu þingmanna á að efla beint lýðræði í eigin flokkum. Þá sjaldan sem lýðræðislegar kosningar voru hafðar til að raða frambjóðendum var niðurstaðan hundsuð og fabrikeraðir einhvers konar fléttulistar,“ segir Brynjar. Ennfremur vitnar hann í ummæli Svans Kristjánssonar stjórnmálafræðiprófessors í Ríkisútvarpinu þess efnis að prófkjör hafi eyðilagt Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég sem hélt að beint lýðræði væri helsta baráttumál Pírata. Kannski er beina lýðræðið aðeins nýtilegt þegar líkleg niðurstaða hentar þeim ágæta flokki. Gæti verið skýringin á þvi að Píratar hafa ekki beitt sér fyrir beinu lýðræði þegar kemur að staðsetningu flugvallarins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert