Kynþáttahatrið sameinar þá

Þetta er miðstöð fyrir flóttafólk í Danmörku.
Þetta er miðstöð fyrir flóttafólk í Danmörku. AFP

Fólksstraumurinn til Evrópu á sér vart hliðstæðu en þrátt fyrir það er aðeins brot af þeim sem eru á flótta í heiminum á leið til Evrópu eða eru komnir þangað. Flestir þeirra sem koma til Evrópu eru að flýja stríð, átök og hungur í ríkjum Afríku og Miðausturlöndum.

Í lok síðasta árs voru 59,5 milljónir á flótta í heiminum og hafa aldrei verið jafn margir í sögunni. Þetta er fjölgun um 8,3 milljónir á milli ára, samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Allt stefnir í að þessi tala eigi eftir að hækka enn frekar í ár.

Þrátt fyrir að aðeins brot af flóttafólkinu hafi komið til Evrópu þá er fjöldinn gríðarlegur, eða tæp hálf milljón sem hefur komið yfir Miðjarðarhafið á átta mánuðum. Þar af 180 þúsund Sýrlendingar. Flestir hafa komið til Grikklands og Ítalíu og reynt að komast þaðan áfram til annarra ríkja Evrópu. Sitt sýnist hverjum um flóttafólkið og á sama tíma og því fjölgar virðist sem þjóðernishreyfingum vaxi fiskur um hrygg í mörgum löndum.

Á Norðurlöndunum, fyrir utan Ísland, hefur stuðningur við þjóðernisflokka stóraukist á síðustu árum og í Finnlandi er Finnaflokkurinn kominn í ríkisstjórn og Framfaraflokkurinn er annar tveggja ríkisstjórnaflokka Noregs. Danski þjóðarflokkurinn situr ekki í ríkisstjórn en styður hana engu að síður falli og í Svíþjóð mælast Svíþjóðardemókratar stærsti og næst stærsti flokkurinn í skoðanakönnunum.

Verða stjórntækir með því að gera málamiðlanir

Á Íslandi hafa þjóðernishreyfingar átt erfitt uppdráttar en ekki er hægt að útiloka að þróunin verði svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Í nýrri skoðanakönnun Maskínu kemur fram að fleiri en þrír af hverjum tíu hafa miklar áhyggjur af því að fjöldi innflytjenda verði of mikill á Íslandi og fjórðungur aðspurðra telur að við eigum ekki að taka á móti flóttafólki.

Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að ekki sé hægt að setja alla þjóðernisflokka í Evrópu undir einn og sama hatt því að þeir séu afar ólíki rinnbyrðis og stefna þeirra misróttæk. Auk þess gangi hugmyndafræðin út á þjóðernisstefnu og þjóðleg gildi sem stangist á við hugmyndir eða alþjóðsamvinnu. Engu að síður eigi flestir þessir flokkar í einhvers konar þverþjóðlegum samstarfi. Hér áður hafi flestir þeirra ekki þótt stjórntækir vegna þess hve þeir voru ofstækisfullur en það sé að breytast, enda hafa þeir orðið að gera málamiðlanir í málflutningi og stefnu þegar þeir setjast í ríkisstjórn.

Almennt séð virðast þessir flokkar vera stjórntækir í Skandínavíu fyrir utan Svíþjóðardemókratana, segir Valur. Hann segir að nú sé víða erfitt í Evrópu fyrir miðhægri borgaraflokka að mynda ríkisstjórn án stuðnings þjóðernisflokka, hvort sem þeir fari inn í ríkisstjórn líkt í Noregi og Finnlandi, eða þeir standi fyrir utan sjálfa ríkisstjórnina en styðji hana gegn því að samið sé við þá  um einstök mál. Að þessi leyti eiga þjóðernisflokkar enn meiri hugmyndafræðilega samleið með miðhægri flokkum en öðrum, þótt þeir séu einnig samkeppnisaðilar um fylgi kjósenda.

Sprottnir úr öðru umhverfi en fasistaflokkarnir

Aðspurður um rætur þjóðernisflokkanna sem nú starfi í Evrópu segir hann þá sprottna upp úr öðru umhverfi en fasistaflokkar á millistríðsáranna.

„Þjóðernisflokkar í dag draga ekki í efa lýðræðis- og efnahagskerfið líkt og var á millistríðsárunum og þeir beina ekki spjótum sínum að kommúnistum líkt og þá. Það er því hugmyndafræðilegur munur á milli tímabilanna. Aftur á móti eru önnur atriði sem þeir eiga sameiginlegt með forverum sínum, eins og kynþáttahatur og andstöðu gegn ákveðnum samfélags- og trúarhópum. Það sem bindur þá saman í dag er baráttan gegn yfirþjóðlegu valdi sem Evrópusambandið er tákn fyrir. Enn fremur má greina andstöðu gegn hnattvæðingu og þau gildi sem Bandaríkin standa fyrir hjá flokkum eins og Þjóðfylkingunni í Frakklandi og smærri hreyfingum eins og Pegida í Þýskalandi.

Efnahagsstefnaþjóðernisflokka í Evrópu var þó lengi um margt lík flokkum sem tengja sig við frjálshyggju og gekk út á að draga úr vægi ríkisvaldsins í efnahagsmálum. Norski Framfaraflokkurinn og Frelsisflokkurinn í Austurríki eru dæmi þess,“ segir Valur.

Taka fylgi frá sósíaldemókrötum með velferðaráherslu

Stjórnarsamstarf Frelsisflokksins og Þjóðarflokksins í kjölfar stórsigurs þess fyrrnefnda í þingkosningum í Austurríki árið 1999 markar ákveðin tímamót í sögu þjóðernisflokka í Evrópu. Ríkisstjórnarsamstarfið vakti mikla reiði víða um álfuna og beitti Evrópusambandið Austurríki refsiaðgerðum vegna þess, segir Valur.

„En nú er annað upp á teningnum og Frelsisflokkurinn orðinn stjórntækur flokkur í Austurríki án þess að utanaðkomandi aðilar skipti sér af því. Það sem hefur breyst á undanförnum árum er að þessir evrópsku þjóðernisflokkar, eins og til dæmis dæmis Frelsisflokkurinn og Finnaflokkurinn, eru farnir að leggja meiri áherslu á velferðarmál. Það tengist baráttu þeirra gegn innflytjendum með beinum hætti, enda gengur stefnan út á félagslegt réttlæti fyrir Finna og Austurríkismenn en ekki innflytjendur. Þessir flokkar beina sjónum sínum að ófaglærðu launafólki sem þeir segjast vera að vernda fyrir ásókn innflytjenda í störf þeirra. Þetta hefur haft þau áhrif að þessir flokkar sækja í auknu mæli fylgi sitt til þessa hóps sem áður studdi sósíaldemókrata og aðra vinstri flokka, ekki síst í borgum.

Þetta hefur þýtt að það sem áður var óhugsandi er orðið að veruleika – sósíaldemókratar og Frelsisflokkurinn mynduðu saman héraðsstjórn í Burgenland í sumar. Það hefði aldrei gerst áður,“ segir Valur. Það sýnir hve miklum árangri þessir flokkar hafa náð í að brjóta niður hugmyndafræðilega múra.

Margir miðhægri flokkar taka upp harðari stefnu

Hann segir þetta sýni að að skilin milli hægri og vinstri afla í stjórnmálum séu í sumum Evrópulöndum ekki eins afdráttarlaus og áður. Syriza-flokkurinn í Grikklandi ætlar t.d. að mynda aftur stjórn með róttækum hægri þjóðernissinnum í stað hófsamra sósíaldemókrata.

„Almennt má segja að Þjóðernisflokkar hafa náð að breyta orðræðunni varðandi innflytjendur mikið, enda hafa hinir flokkarnir orðið að bregðast við málflutningi þeirra. Þetta hefur m.a. leitt til þess að miðhægri flokkar með nokkrum undantekningum þó, eins og kristilegir demókratar í Þýskalandi eða hægri flokkurinn í Svíþjóð, hafa tekið upp harðari stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks en þeir gerðu áður. Það þjónar líka þeim tilgangi að koma í veg fyrir fylgistap til þjóðernisflokka,“segir Valur.

Niðurstaða skoðanakönnunar sem birtist hér á landi í síðustu viku sem sýndi að fólk sem er 35 ára og eldra hefur meiri áhyggjur en fólk yngra en 35 ára á komu flóttafólks hingað til lands. Íbúar af landsbyggðinni hafa meiri áhyggjur en höfuðborgarbúar og þeir sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi hafa mun meiri áhyggjur en þeir sem hafa lokið meiri menntun. Þá hafa kjósendur stjórnarflokkanna mun meiri áhyggjur en kjósendur annarra flokka, en vel yfir helmingur kjósenda stjórnarflokkanna hefur miklar áhyggjur af því að fjöldi innflytjenda verði of mikill á Íslandi.

Á Íslandi hafi þjóðernisflokkar átt erfitt uppdráttar og hafa fáir flokkar tekið upp slíka stefnu formlega þrátt fyrir að einhverjir hafi daðrað við rasisma, segir Valur. Hann segist jafnvel hafa átt von á að slíkur flokkur myndi spretta upp í kjölfar efnahagshrunsins hér árið 2008 enda kjöraðstæður fyrir slíka flokksmyndun en ekkert slíkt hafi gerst. Hér sé miklu fremur um almennt vantraust að ræða á kerfinu og stjórnmálum landsins en að þjóðerniskennd hafi ráðið ríkjum.

Íhaldsflokkarnir hafa tekið harðari línu gagnvart innflytjendum og flóttafólki víða í Evrópu, segir Valur. „Við sjáum það til að mynda í Danmörku og Austurríki. En það eru ekki aðeins íhaldsflokkar sem hafa breytt um stefnu heldur hafa þjóðernisflokkar einnig haft áhrif á stefnu sósíaldemókrata.  Fyrir kosningarnar í  Danmörku í sumar mátti greina mun neikvæðari tón í garð innflytjenda í orðræðu sósíaldemókrata . Sósíaldemókratar í Austurríki segja það hreint út að þeir geti ekki látið Frelsisflokkinn taka alla umræðuna um innflytjendamál og vinnumarkaðinn ,“ segir Valur og bendir á að þar snúist þetta um samkeppni um atkvæðin meðal sömu samfélagshópanna

Kosningakerfin skipta máli

Ólík kosningakerfi milli landa hafa mikið að segja um hver valdastaða þjóðernisflokkana er. Til að mynda hefur Þjóðfylkingin (Front National) í Frakklandi oft fengið mikið fylgi í fyrri umferð forsetakosninga sem og í þingkosningum, en hefur síðan ekki náð nema einum eða tveimur mönnum engum á þing í seinni umferðinni. Það sama gerðist með Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) sem fékk 13,5% atkvæða í þingkosningum fyrr á árinu en aðeins einn þingmann kjörinn.

Jobbik flokkurinn einn sá öfgafyllsti

Eins og hér kom fram að framan eru þjóðernisflokkar ólíkir milli landa en einn sá öfgafyllsti sem náð hefur góðum árangri í kosningum er ungverski stjórnmálaflokkurinn Jobbik.

Flokkurinn fékk um 25% atkvæða í síðustu þingkosningum og er þriðji stærsti flokkur landsins. Jobbik er róttækur þjóðernisflokkur sem berst gegn gyðingum og múslímum, segir Valur sem segir flokkinn boða ákveðið afturhvarf til fortíðar. Flestir þjóðernisflokkar hafa ekki viljað tengjast fasisma sem er smánarblettur í huga flestra.

„Það er stimpill sem nútíma þjóðernisflokkar vilja almennt ekki láta tengja sig við með beinum hætti. Aftur á móti hefur Jobbik upphafið ríkisstjórn Miklós Horthys sem var við völd á árunum milli stríða. Auk þess vill hann endurheimta landssvæði sem Ungverjaland missti eftir fyrri heimsstyrjöld, þar sem Ungverjar eru í minnihluta. Horty-stjórnin var valdboðsstjórn, en ekki fasistastjórn. Engu að engu að síður var hún afturhaldssöm, að sögn Vals. Horthy var í beinum tengslum við Adolf Hitler á árunum milli stríða og í síðari heimstyrjöldinni eða þangað til honum var bolað frá völdum að undirlagi Þjóðverja.

Stjórnmálaflokkur Viktors Orbans, forsætisráðherra Ungverjalands, Fidesz, nýtur stuðnings 48% kjósenda en flokkurinn er hægri flokkur sem gengur miklu lengra í átt að þjóðernisflokkum en flestir hefðbundnir hægriflokkar í Evrópu. Flokkurinn nýtur mest fylgis meðal íbúa í dreifðum byggðum landsins á meðan sósíaldemókratar hafa notið meira fylgis í borgum.

„Ef við horfum yfir á hinn vænginn þá sjáum við stjórnmálaflokk eins og Framfaraflokkinn í Noregi sem á fátt sameiginlegt með öfgafyllstu þjóðernisflokkum Evrópu. Hannvill vinna með miðhægri flokkum og draga úr ríkisafskiptum á sama tíma og hann vill halda uppi lögum og reglu. Framfaraflokkurinn styður veru Noregs í NATO og er ekki á móti hnattvæðingu,“ segir Valur og bætir við að það sem sýni einna best hversu flókið pólitískt landslag er í Evrópu um þessar mundir eru flokkadrættir á Evrópuþinginu. Þar eru  Finnaflokkurinn og danski Þjóðarflokkurinn í hópi með breska Íhaldsflokknum sem vill ekki vera með hinum hefðbundnu hægri flokkunum þar sem flokkurinn á ekki samleið með þeim í Evrópumálum,“ að sögn Vals.

Hatrið á íslam tengir þá saman

Það eru samt þræðir sem tengja marga þessa flokka saman eins og hatur á íslam og barátta fyrir þeirra fyrir þjóðlegum gildum, segir Valur. Margir þeirra séu andsnúnir hnattvæðingu, gegn yfirþjóðlegu valdi, eins og Evrópusambandinu, og svo beinist andúð þeirra mismikið að íslam og gyðingum, segir Valur.

Hann bendir einnig á að innbyrðis deilur innan þjóðernisflokkanna setji oft sterkan svip sinn á starfsemi þeirra. Þeir eldri í þjóðernisflokkunum eru oft hófsamari á meðan þeir yngri eru róttækari í skoðunum sínum og í sumum tilvikum nátengdir rasistum. Að vísu sé þessu öfugt farið í löndum eins og Frakklandi þar sem deilur Le Pen feðginanna hafa vakið mikla athygli. Marine Le Pen, núverandi formaður FN lét reka föður sinn, Jean Marie úr flokknum nýverið þar sem hann hefur ítrekað haldið því fram að útrýmingarbúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni hafi verið neðanmálsgrein á spjöldum sögunnar auk þess sem ýmis ummæli hans þykja ekki henta flokknum í dag. Fylgi FN hefur aukist jafnt og þétt síðan Marine Le Pen tók við formannsembættinu af föður sínum en hún forðast að tala með beinum hætti gegn múslímum eða eða gyðingum. Hins vegar beinir hún sjónum að múslímum með öðrum hætti: hve gag fari illa þeir fari með konur og að samræmist ekki frönskum gildum.

Það hefur vakið athygli hversu vel Þjóðverjar hafa tekið á móti flóttafólki og ríkisstjórnarflokkarnir í Þýskalandi standa þétt saman í því að bjóða flóttafólkið velkomið og segja að trúarskoðanir fólks skipti ekki máli.

Hins vegar segja Þjóðverjar að þrátt fyrir að þeir taki vel á móti flóttafólki þá eigi það ekki við um förufólk, það er fólk sem er að flýja efnahagsaðstæður í heimalandinu. Þetta er ríkjandi skoðun meðal stjórnvalda í mörgum ríkjum Evrópu og um leið íbúa sem hafa samúð með þeim sem flýja ofbeldi og stríð en síður þeim sem flýja fátækt. Þar hefur efnahagsástandið í Evrópu töluvert að segja því margir óttast um stöðu sína, svo sem lífsafkomu og því ekki ólíklegt að skoðanir þeirra sem tengjast öfgahreyfingum eigi eftir að verða meira áberandi í að minnsta kosti austurhluta Þýskalands, svo sem Dresden og nágrenni. En það er eitthvað sem tíminn einn getur leitt í ljós, segir Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Komu Marine Le Pen formanns Front National mótmælt í Belgíu
Komu Marine Le Pen formanns Front National mótmælt í Belgíu AFP
Frá Dresden í Þýskalandi
Frá Dresden í Þýskalandi AFP
Flóttafólk frá Sýrlandi í Calais í Frakklandi
Flóttafólk frá Sýrlandi í Calais í Frakklandi AFP
AFP
Flóttafólk á Lesbos
Flóttafólk á Lesbos AFP
Þjóðernisflokkar í Evrópu eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera á …
Þjóðernisflokkar í Evrópu eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera á móti múslímum AFP
Valur Ingimundarson sagnfræðingur
Valur Ingimundarson sagnfræðingur
Flóttafólk hefur streymt til Evrópu undanfarin misseri en aðeins brot …
Flóttafólk hefur streymt til Evrópu undanfarin misseri en aðeins brot af þeim sem eru á flótta í heiminum eru á leið til Evrópu AFP
Ungversk yfirvöld vara flóttamenn við því að koma inn í …
Ungversk yfirvöld vara flóttamenn við því að koma inn í landið AFP
Margir þeirra sem koma til Evrópu hafa verið á flótta …
Margir þeirra sem koma til Evrópu hafa verið á flótta árum saman AFP
Ungverskir fangar vinna við að koma upp varnargirðingum á landamærum …
Ungverskir fangar vinna við að koma upp varnargirðingum á landamærum landsins. Þessi mynd er takin við Hercegszántó á landamærum Ungverjalands og Króatíu AFP
Við landamærastöðina í Roszke en myndatökukonan starfaði hjá N1TV, netsjónvarpsstöð …
Við landamærastöðina í Roszke en myndatökukonan starfaði hjá N1TV, netsjónvarpsstöð sem er nátengd Jobbik flokknum AFP
AFP
Gullin dögun í Grikklandi er öfgaþjóðernisflokkur. Nikos Michaloliakos er formaður …
Gullin dögun í Grikklandi er öfgaþjóðernisflokkur. Nikos Michaloliakos er formaður flokksins AFP
Gullin dögun nýtur stuðnings um 7% grískra kjósenda
Gullin dögun nýtur stuðnings um 7% grískra kjósenda AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert