Segir forsögu Annþórs og Barkar áhrifavald

Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða …
Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða samfanga sins í maí 2012. Ákæra var gefin út í málinu ári síðar. Ómar Óskarsson

Rannsókn lögreglu og framsetning ákæruvaldsins í dómsmáli gegn þeim Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni, sem ákærðir eru fyrir að valdið dauða samfanga síns í maí árið 2012, er með öllu ófullnægjandi þar sem fjölda annmarka er að finna og óljóst orðalag í ákæru. Þá er matsgerð dómskvaddra matsmanna sögð fá falleinkunn hjá erlendum yfirmatsmönnum sem dómurinn kvaddi til. Þetta kemur fram í greinargerð verjanda Annþórs, sem mbl.is hefur undir höndum. Hólmgeir Elías Flosason er verjandi Annþórs.

Meðal annars er vísað til þess að í einu yfirmatinu séu íslenskir matsmenn sagðir hafa farið út fyrir hlutverk sitt sem sérfræðingar og að þeir hafi sett sig í sæti dómara.

„Gylliboð“ til fanga sem báru vitni

Í greinargerðinni er ýjað að því að lögreglan á Selfossi hafi reynt að hafa áhrif á framburð vitna í málinu, en fram kemur að fangar sem báru vitni í málinu hafi verið færðir í „mildara fangelsi“ fljótlega eftir framburð þeirra, þrátt fyrir að slíkt hefði ekki átt að koma til skoðunar vegna agabrota. „Um hlýtur að vera að ræða óvenju sérstæða tilviljun,“ segir í greinargerðinni, en tekið er fram að ómögulegt sé að færa sönnur á þessar ásakanir um „gylliboð“ til vitnanna.

Annþór og Börkur eru í málinu ásakaðir um að hafa veist að samfanga sínum, sem var nýkominn til vistunar á Litla-Hrauni. Í greinargerðinni kemur aftur á móti fram að óljóst sé hvernig þeir eigi að hafa framið hið meinta brot, t.d. sé ekki gerð tilraun til að aðgreina þátt þeirra og þá sé talað um „högg“ án þess að fram komi hvort það sé í eintölu eða fleirtölu. „Nærtækasta skýringin á óljósu orðalagi ákærunnar er sú að ákæruvaldið veit ekki hvað gerðist vegna þess að rannsókn málsins leiddi það ekki í ljós,“ segir í greinargerðinni.

Hleraðir í fangelsinu

Við rannsókn málsins voru þeir Annþór og Börkur meðal annars hleraðir, bæði í gegnum síma fangelsins og með rýmishlerun á öryggisgangi. Segir í greinargerðinni að þrátt fyrir þetta hafi ekkert komið í ljós, annað en að þeir hafi haft uppi áhyggjur um að þeir yrðu ásakaðir um glæp sem þeir frömdu ekki.

Þá er gagnrýnt að skýrslur sem lögreglan tók af þremur ónafngreindum vitnum hafi aðeins verið afhentar þar sem meirihluti textans hafi verið svertur og það eina sem þar megi lesa séu vangaveltur og getgátur. Við skýrslutöku fyrir dómi gafst vitnum í málinu kostur á að svara spurningum með að skrifa á blað, þrátt fyrir að ákærðu í málinu mættu ekki vera í salnum. Segir í greinargerðinni að með þessu hafi verð útilokað fyrir verjendur að spyrja nánar út í einstök atriði þar sem þeim væri ókunnugt um svörin. „Grundvallarmannréttindi sakaðra manna voru einfaldlega fótum troðin,“ segir þar.

Umdeildar matsgerðir í málinu

Réttarkrufning var gerð á þeim látna, en í framhaldinu var fenginn íslenskur réttarmeinafræðingur og tveir prófessorar í sálfræði til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Verjendur í málinu óskuðu eftir því að fá erlenda yfirmatsmenn til að fara yfir þessar niðurstöður, en það tók tæplega ár að skipa þá og tafði það málið mikið.

Í greinargerðinni segir að niðurstaða yfirmatsmanna sé afdráttarlaus um að áverkarnir á miltanu hafi ekki hlotist vegna högga eða sparka frá öðrum aðila. Þá hafi engir ytri áverkar bent til slíks. Einnig sé bent á að rof á milta geti meðal annars komið til vegna endurlífgunatilrauna, en þær voru meðal annars framkvæmdar af fangavörðum, sjúkraflutningamönnum og lögreglu. Annar erlendi réttarmeinafræðingurinn sem var fenginn sem yfirmatsmaður sagði meðal annars að hann hefði áður rannsakað tilvik þar sem andlát hefði orðið vegan rofs á milta. Þar hefðu bæði lögregluskýrslur og krufning sýnt afdráttarlaust högg á kviði, en slíkt var ekki til staðar í þessu máli. Þá segja þeir báðir að ekki sé hægt að útiloka að áverkar á bláæð hins látna hafi orðið til við meðhöndlun í krufningu.

Segja íslensku sálfræðingana hafa sest í sæti dómara

Íslensku prósessorarnir í sálfæði sögðu í matsgerðinni að sterkar vísbendingar væru á myndbandinu að hinum látna hefði verið ógnað af ákærðu og jafnvel átt í útistöðum við Annþór. Í greinargerð verjanda Annþórs segir að íslenska matsskýrslan sé harðlega gagnrýnd af þremur erlendum réttarsálfræðingunum sem voru dómkvaddir. Þannig sé engin leið að mæla áreiðanleika mats þeirra og að mörg tæknileg vandamál eða hömlur séu á rannsókninni sem dragi úr áreiðanleika þeirra ályktana sem komu fram í matsgerðinni.

Einn réttarsálfræðingurinn gangi jafnvel svo langt að segja að íslensku sálfræðingarnir hafi farið út fyrir hlutverk sitt sem sérfræðingar og sest í sæti dómara í málinu.

Valdasýning fyrir fjölmiðla

Lögmaður Annþórs gagnrýnir að lokum í greinargerðinni flutning ákærunnar í málinu sem hann hafi nefnt sem „valdasýningu fyrir fjölmiðla.“ Segir hann að svo virðist vera sem „forsaga ákærðu Annþórs og Barkar hafi spilað meginhlutverk í máli þessu og haft áhrif á dómgreind rannsakanda og ákærenda.“ Þannig hafi allar rannsóknir miðað að því að sýna fram á sekt ákærðu.

Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm. Verjandi hans kallar þetta „valdasýningu …
Lög­regla fær­ir Annþór fyr­ir dóm. Verjandi hans kallar þetta „valdasýningu fyrir fjölmiðla.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert