Íbúar Miklubrautar fengu áfallahjálp

Nokkuð lögreglulið og þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang.
Nokkuð lögreglulið og þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Íbúar og starfsfólk búsetukjarna Reykjavíkurborgar við Miklubraut 20 hafa fengið áfallahjálp eftir að íbúi varð öðrum íbúa að bana í húsinu í gærkvöldi. Að jafnaði dvelja sex til átta íbúar í húsinu og glíma þeir við fjölþættan vanda, þ.e. bæði geðraskanir og fíknivanda.

Karlmaður á fertugsaldri er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaður um að hafa orðið manni að bana í húsinu í gærkvöldi.

Lögreglu barst tilkynning um alvarlega líkamsárás kl. 21.55 í gærkvöldi en þegar komið var á staðinn örskömmu síðar fannst karlmaður um sextugt sem hafði orðið fyrir líkamsárás og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Lögð verður fram krafa um gæslu­v­arðhald yfir hinum hand­tekna síðar í dag.

Glíma við geðraskanir og fíknivanda

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, fundaði með starfsfólki búsetukjarnans í morgun. „Það er vel haldið utan um þetta er varðar íbúa og starfsfólk á Miklubraut 20,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort Reykjavíkurborg muni gera ráðstafanir eða breytingar á starfsemi búsetukjarnans í kjölfar málsins í gær segir Stefán ekki tímabært að segja til um það á þessari stundu.

„Það sem við munum auðvitað gera er að rýna það sem þarna gerðist og átta okkur á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í okkar vinnu. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess. Við munum skoða það mjög nákvæmlega og yfirfara það verklag og vinnuskipulag þarna til að sjá hvort að það er eitthvað sem betur má fara,“ segir hann.

Að jafnaði búa um sex til átta íbúar í búsetukjarnanum. Misjafnt er hversu lengi íbúar dvelja þar, sumir stutt en aðrir hafa búið þar í rúmlega tíu ár, eða frá því að úrræðið var sett á laggirnar. Allt eru þetta fullorðnir einstaklingar sem glíma við geðraskanir og fíknivanda. „Þarna er einn flóknasti hópur okkar skjólstæðinga,“ segir Stefán. 

Frétt mbl.is: Hinn látni var um sextugt

Frétt mbl.is: Manndráp við Miklubraut

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert