Kysi helst fangelsið áfram

Maðurinn hefur dvalið á Kvíabryggju undanfarnar vikur.
Maðurinn hefur dvalið á Kvíabryggju undanfarnar vikur. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Hollenskur karlmaður á þrítugsaldri sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá septemberlokum kysi helst að vera áfram á Kvíabryggju meðan hann þarf að dvelja á landinu. Þetta segir Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi mannsins, í samtali við mbl.is, en gæsluvarðhald yfir honum og þremur öðrum sem grunaðir eru um aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli rennur út í dag.

Frétt mbl.is: Staðfesta gæsluvarðhald til 22. desember

Maðurinn hefur setið í varðhaldi hérlendis ásamt samlanda sínum og tveimur Íslendingum frá septemberlokum. Farið verður fram á farbann yfir þeim í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í dag að sögn Ómars.

Veit ekki hvað tekur við

Hann segir skjólstæðing sinn ekki hafa neinn dvalarstað hér á landi, en honum hafi liðið vel í fangelsinu á Kvíabryggju þar sem hann hefur verið undanfarið. Í 4.mgr. 95.gr. laga um meðferð sakamála kemur hins vegar fram að ekki megi úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Ómar telur ljóst að slíkir brýnir hagsmunir séu ekki lengur til staðar í ljósi þess hve lengi hinir grunuðu hafi setið í varðhaldi. Hann segir framhaldið erfitt fyrir skjólstæðing sinn, enda viti hann ekki hvar hann komi til með að dvelja eða hversu lengi.

„Málið er enn í rannsókn og á eftir að fara til ríkissaksóknara eða nýs embættis héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn, svo það gæti tekið vikur eða jafnvel mánuði,“ segir Ómar.

Aldís Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is að málið sé enn til rannsóknar, en segir ekki ljóst hvenær henni ljúki.

Frétt mbl.is: Tugir kílóa af sterkum fíkniefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert