Barist í 8 ár fyrir skjálftabótum

Diðrik hefur barist fyrir því að fá viðunandi bætur fyrir …
Diðrik hefur barist fyrir því að fá viðunandi bætur fyrir Friðarstaðir í Hveragerði.

Á sjö ára tímabili hækkuðu tillögur Viðlagatryggingar Íslands um bætur til Diðriks Sæmundsonar vegna húss sem skemmdist í Suðurlandsskjálftanum úr 800 þúsund krónum í 13 milljónir króna.

Diðrik hefur ekki sætt sig við tillögur stofnunarinnar og krefst þess að fá greitt andvirði brunabótamats hússins, um 22 milljónir króna.

Tíu milljónir í lögfræðikostnað

Hann hefur eytt um tíu milljónum króna á síðastliðnum fimm árum í lögfræðikostnað vegna tjóns sem hann varð fyrir í skjálftanum. Hann hefur barist fyrir því í átta ár að fá greiddar þær bætur sem hann telur sig eiga skilið eftir að húsið hans, Friðarstaðir í Hveragerði, skemmdist í skjálftanum 29. maí 2008.

Stjórn Viðlagatryggingar Íslands hafnaði því árið 2012 að tilgreina skemmdirnar á húsi hans sem altjón en féllst á að greiða Diðriki tæpar 4 milljónir króna, að frádreginni innborgun sem hann hafði áður fengið að upphæð rúmlega 3 milljóna króna. Áður hafði stofnunin boðist til að greiða Diðriki tæpar 800 þúsund krónur í bætur haustið 2008.

Vill fá 22 milljónir 

Sjálfur vill hann fá um 22 milljónir króna í bætur, sem er jafngildi brunabótamats hússins í dag, enda hafi það verið ónýtt eftir skjálftann og enginn búið þar síðan. Hann kærði því úrskurð stjórnarinnar til úrskurðarnefndar.

Viðlagatrygging Íslands óskaði í framhaldinu eftir því að dómkvætt mat yrði gert á húsinu. Þar kom fram í niðurstöðu frá síðasta sumri að veggir hússins hefðu rifnað í skjálftanum og eldri sprungur gliðnað. Gera ætti við húsið fyrir rúmar 13 milljónir króna. 

Suðurlandsskjálftinn mældist 6,3 á Richter.
Suðurlandsskjálftinn mældist 6,3 á Richter. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sættir sig ekki við úrskurð

Stjórn Viðlagatryggingar úrskurðaði í málinu í október síðastliðnum. Sá úrskurður byggði á mati dómkvöddu matsmannanna, sem var það þriðja í röðinni. Úrskurðurinn hljóðar upp á að Viðlagatrygging Íslands greiði Diðriki bætur upp á rúmar 13 milljónir króna.

Diðrik sætti sig ekki við þessa niðurstöðu stjórnarinnar og kærði hana aftur til úrskurðarnefndar, þar sem málið er núna til meðferðar.

Síðan hann óskaði fyrst eftir bótum vegna Suðurlandsskjálftans hafa tillögur Viðlagatryggingar Íslands um bætur til hans því hækkað úr 800 þúsund krónum í 13 milljónir króna.

Umfang tjónsins lá ekki fyrir 

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, segir að þegar málið hófst árið 2008 hafi ekki legið fyrir umfang þess tjóns á húsinu sem síðar hefur komið í ljós við áframhaldandi vinnslu málsins. „Tjónþola er ávallt heimilt að andmæla tjónamötum, hlutast sjálfur til um að láta gera tjónamöt, samþykkja tjónamöt og tilkynna viðbótartjón. Í þessu tjónamáli hefur reynt á öll þessi atriði,“ segir Hulda Ragnheiður.

„Viðlagatrygging Íslands tekur allar tjónstilkynningar til meðferðar og afgreiðslu og hefur við vinnslu málsins komið í ljós að umfang þess tjóns sem varð á fasteign tjónþola er mun meira en tjónþoli tilkynnti um í upphafi.“

Seinvirkt kerfi 

Diðrik gagnrýnir starfshætti úrskurðarnefndarinnar og stjórnar Viðlagatryggingar Íslands og finnur að því að þær birti ekki úrskurði sína opinberlega.

„Þetta er voðalega seinvirkt kerfi. Fyrsta dómkvadda undirmatið kom í janúar 2011. Stjórnin úrskurðar ekkert um það fyrr en í byrjun árs 2012 og þá er mánaðarfrestur til að kæra til úrskurðarnefndar,“ segir Diðrik.

Eftir það bað hann um dómkvatt yfirmat, sem kom um í janúar 2013.  „Úrskurðarnefnd úrskurðar í október 2014 og kemst að því að málið hafi ekki verið rannsakað nógu vel og að það þyrfti að fara fram þriðja dómkvadda matið.“

Diðrik Sæmundsson hefur staðið í stappi við Viðlagatryggingu Íslands í …
Diðrik Sæmundsson hefur staðið í stappi við Viðlagatryggingu Íslands í langan tíma.

Flókin úrlausnarmál sem taka tíma

Spurð út í þennan langa tíma sem hefur tekið að vinna úr málinu segir Hulda Ragnheiður að sum málanna tengdum Suðurlandsskjálftanum hafi verið flókin úrlausnar. „Það er eðlilegt að það taki langan tíma að greiða úr málum þar sem aðilar eru ekki sammála. Það væri kostur ef úrlausnarferlið tæki styttri tíma og það eru mál sem ég hefði kosið að tæki skemmri tíma,“ segir hún. „Ekki vegna þess að við séum ekki að sinna þeim heldur eru þetta mjög flókin úrlausnarmál.“

Aðspurð hvort kröfur Diðriks séu óraunhæfar segir Hulda: „Ef mál fer fyrir úrskurðarnefnd er það vegna þess að við teljum að kröfurnar séu ekki raunhæfar.“

Þrettán ágreiningsmál í vinnslu

Þrettán mál eru enn í vinnslu hjá Viðlagatryggingu Íslands vegna Suðurlandsskjálftans. Átta þeirra eru hjá úrskurðarnefnd og fimm hafa verið lögð fyrir stjórn stofnunarinnar. Eftir að stjórnin afgreiðir mál getur tjónþoli vísað því til úrskurðarnefndar.

Tíu milljarðar greiddir út

Alls voru tilkynnt á bilinu fjögur til fimm þúsund tjón vegna Suðurlandsskjálftans og hefur Viðlagatrygging Íslands greitt út ríflega tíu milljarða króna til tjónþola.

„Þetta er mjög lágt hlutfall sem er ennþá í ágreiningi,“ segir Hulda Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert