Meintir smyglarar í farbann

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag farbann yfir tveimur Íslendingum og einum Hollendingi sem grunaðir eru um aðild að stórfelldu fíkniefnasmygli. Lögregla lagði hald á 19,5 kíló af amfetamíni og 2,5 kíló af kókaíni við rannsókn málsins en fjórir aðilar voru handteknir vegna hennar, tveir Íslendingar og tveir Hollendingar.

Þremenningarnir eru grunaðir um brot sem geta varðað við allt að tólf ára fangelsi. Í úrskurði héraðsdóms um farbannið yfir þeim kemur fram að rannsókn lögreglu sé vel á veg komin en hún beinist meðal annars að því að hafa uppi á samverkamönnum kærðu í Hollandi. Rannsóknin fari meðal annars fram í samstarfi við lögreglu þar og annars staðar.

Talið er að efnunum hafi verið smyglað til landsins með Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar 22. september í fyrra. Lögreglan stöðvaði síðar bíl sem efnin voru falin í og voru fjórmenningarnir handteknir í tengslum við málið.

Mennirnir þrír sem nú voru dæmdir í farbann sátu í gæsluvarðhaldi í tólf vikur frá 29. september.

Fjórði maðurinn er einnig í farbanni. Sagt var frá því í haust að fjölskylda hans í Hollandi hafi leitað hans á meðan hann sat í einangrun í fangelsi hér á landi vegna málsins. Þá var talað um að hann byggi við greindarskerðingu og andlega fötlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert