Gupta sigraði á Reykjavíkurskákmótinu

Abhijeet Gupta (2634) tryggði sér sigur á 31. GAMMA Reykjavíkurskákmótinu …
Abhijeet Gupta (2634) tryggði sér sigur á 31. GAMMA Reykjavíkurskákmótinu í dag. Mynd/Tómas Veigar Sigurðarson

Indverski stórmeistarinn Abhijeet Gupta sigraði á 31. GAMMA Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í dag. Gupta hafði vinnings forskot á næstu menn fyrir umferðina í dag og dugði því jafntefli til þess að tryggja sér sigurinn. 

Gupta hafði hvítt í lokaumferðinni gegn ítalska stórmeistaranum Francesco Rambaldi og gerðu þeir jafntefli í 30 leikjum. Gupta var því einn efstur með 8,5 vinninga af 10 mögulegum. Frammistaða hans er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að hann er aðeins sá tíundi stigahæsti á mótinu.

Rússinn Dmitry Andreikin sigraði enska stórmeistarann Gawain Jones nokkuð örugglega í lokaumferðinni og tryggði sér þar með sinn áttunda vinning og 2. sætið í mótinu.

Tania Sachdev (2370) náði afar góðum árangri
Tania Sachdev (2370) náði afar góðum árangri Mynd/Tómas Veigar Sigurðarson

Níu skákmenn eru jafnir í 3.-11. sæti með 7.5 vinninga og því ljóst að skákstjórum mótsins bíður ærið verkefni að reikna út svonefnd „tie-break“ stig sem ráða endanlegri niðurstöðu og skiptingu verðlauna.

Ungverska skákdrottningin og alþjóðlegi meistarinn Tania Sachdev náði góðum árangri í mótinu sem skilaði henni áfanga að stórmeistaratitli eftir 9. umferðina sem tefld var í gær.

Í dag atti hún kappi við stórmeistarann Alexander G Beliavsky og sýndi styrk sinn í verki með nokkuð öruggu jafntefli. Niðurstaðan er því sú að Tania endar í 12.-22. sæti með 7 vinninga og fær fyrir vikið 1. verðlaun í kvennaflokki og líklega einnig í flokki keppenda með minna en 2400 skákstig. 

Hjörvar Steinn Grétarsson varð efstur Íslendinga
Hjörvar Steinn Grétarsson varð efstur Íslendinga Mynd/Tómas Veigar Sigurðarson

Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslendinga, varð efstur heimamanna með 7 vinninga og endar í 12.-22. sæti. Árangur Hjörvars verður að teljast nokkuð góður, enda tapaði hann aðeins einni skák, í 5. umferð gegn ungverska ungstirninu GM Richard Rapport.

Næstir á eftir Hjörvari eru, IM Guðmundur Kjartansson, GM Hannes Hlífar Stefánsson og FM Sigurður Daði Sigfússon með 6,5 vinninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert