Endurskoða aðgerðir vegna mansalsmála

Vík í Mýrdal
Vík í Mýrdal mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áætlun um aðgerðir vegna mansalsmála er nú í endurskoðun og verður mið tekið af ábendingum sem borist hafa í tengslum við mansals mál í Vík í Mýrdal. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Innanríkisráðuneytisins.

Þar segir að endurskoðunin komi meðal annars til vegna ábenginga sem gerðar hafa verið á alþjóðavettvangi og hér á landi en einnig í framhaldi af breyttum áherslum í málaflokknum, m.a. vinnumansali. Mikilvægt sé að fara vel yfir þær ábendingar sem fram hafi komið í rannsókn mansalsmálsins í Vík í Mýrdal og mið verði tekið af þeim í þeirri umbótavinnu sem framundan er.

„Þverfagleg nálgun og samstillt verklag er nauðsynleg forsenda þess að uppræta mansal og veita þolendum nauðsynlega aðstoð og vernd. Það þarf því góða samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld hvað varðar aðstoð og vernd fyrir brotaþola,“ segir í tilkynningunni.

„Hér er einkum um að ræða samstarf lögreglu við heilsugæslu og félagsþjónustu sem sér um að  útvega brotaþolum ýmiss konar aðstoð s.s. húsaskjól, framfærslu og heilbrigðisþjónustu í samvinnu við velferðarráðuneytið. Í því máli sem hefur verið til umfjöllunar og er til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi var framangreind samvinna virkjuð og hafði lögregla tafarlaust samband við félagsmálayfirvöld og var í samstarfi við þau.“

Tekið er fram í tilkynningunni að ráðuneytið hafi ekki lagaheimild til að beita sér í einstökum málum. Úrlausn umsókna um dvalar- og atvinnuleyfi séu á forræði annars vegar Útlendingastofnunar og hins vegar Vinnumálastofnunar.  Fyrirkomulag dvalar- og atvinnuleyfa fórnarlamba mansals sé lögbundið og verði því ekki breytt nema með aðkomu Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert