Bregðist við eins og við náttúruhamförum

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. mynd/Birkir Fanndal Haraldsson

Ríkisstjórnin verður að tryggja fjármagn sem þarf til úrbóta við Mývatn vegna áhyggna af lífríki þess, að mati Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis. Hann segir sumarið ekki mega líða án aðgerða. Hann telur að bregðast þurfi við með sama hætti og við náttúruhamförum.

Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar. Veiðifélög á svæðinu hafa kallað eftir rannsókn á ástandinu.

Í yfirlýsingu sem Jón sendi fjölmiðlum kemur fram að skipa þurfi hóp sérfræðinga til að greina vandann og leggja fram tillögur um úrbætur. Fámennt sveitarfélag ráði ekki við verkefnið og því verði ríkisstjórnin og þingið að tryggja það fjármagn sem til þarf.

„Það má engu til spara og sumarið má ekki líða án þess að það sé notað til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru. Viðkvæm náttúruperla á heimsvísu er undir og afleiðingar aukins straums ferðamanna með tilheyrandi álagi á náttúruna eru kannski að birtast okkur hér með hvað skýrustum hætti. Ábyrgð okkar er mikil og málið þolir enga bið,“ segir Jón sem telur málið brýna  mikilvægi umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustunni.

Í Morgunblaðinu í dag tengir Bragi Finnbogason, formaður Veiðifélags Laxár, ástand Mývatns við fjölgun ferðamanna. Það setji aukið álag á skólp sem veitt er út í vatnið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert