Gríðarlegur léttir eftir 11 ára baráttu

Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð. Brynjar segist …
Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð. Brynjar segist gera ráð fyrir fyrstu íbúunum eftir 18 mánuði. Tölvuteikning/Alark

Dómur Hæstaréttar um að staðfesta dóm héraðsdóms um að ríkinu beri að loka NA-SV-flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli er gríðarlegur léttir. „Þetta er búið að vera 11 ára barátta og nú ætti ekki að vera neitt í veginum fyrir því að uppbygging í Vatnsmýrinni hefjist.“ Þetta segir Brynjar Harðarson, formaður Valsmanna hf., félags sem stendur að uppbyggingunni á svæðinu, í samtali við mbl.is eftir að niðurstaðan varð ljós í dag.

„Þetta er fullnaðarsigur

Hæstiréttur breytti dómi héraðsdóms að því leyti að ríkinu beri að loka brautinni innan 16 vikna frá dómsuppkvaðningu þessa dóms, en áður hafði verið miðað við 16 vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms, sem var í mars á þessu ári. Brynjar segir þetta ekki breyta miklu fyrir framkvæmdirnar. Það verði til að byrja með unnið að sökklum sem nái 4–5 metra ofan í jörðina. Mögulega tefji þetta að hægt sé að setja byggingakrana í fulla hæð, en Brynjar segir það ekki muni tefja framkvæmdir.

„Þetta er fullnaðarsigur í málinu,“ segir hann spurður um niðurstöðu Hæstaréttar að vísa frá atriði sem Reykjavík hafði farið fram á varðandi skipulagskröfur á flugvellinum. Segir hann að þetta atriði skipti í raun ekki miklu máli, þar sem að breyta þurfi skipulagsreglum vallarins þegar brautinni verði lokað. Þetta eigi t.d. við um fjölda brauta, stefnur o.s.frv. Það muni því gerast sjálfkrafa óháð niðurstöðu dómsins.

Menn geta nú snúið sér að því að þróa og þroska flugvöllinn

Spurður hvort hann telji þetta þýða að flugvöllurinn muni loka segir Brynjar að í raun sé málið líka sigur fyrir stuðningsmenn flugvallarins. Segir hann að nú geti menn farið að snúa sér að því að þróa og þroska völlinn. Niðurstaða Hæstaréttar kalli hins vegar ekki á að völlurinn sé færður. Vísar hann í samkomulag innanríkisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá 2013 sem orsakaði dómsmál þetta, en hluti þess samkomulags var m.a. að lengja íveru vallarins frá 2016 til 2024. „Hann verður í fullri notkun eins og undanfarin ár,“ segir Brynjar.

Fyrstu íbúarnir eftir 18 mánuði

Brynjar segist gera ráð fyrir því að næsta sumar verði framkvæmdir komnar langt á tveimur reitum á Hlíðarendasvæðinu og að eftir 18 mánuði verði fyrstu íbúðirnar tilbúnar og í framhaldinu muni fyrstu íbúarnir flytja inn.

Brynjar Harðarson.
Brynjar Harðarson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert