Enn þá til sæti til Frakklands

Fjölmargir Íslendingar eru annaðhvort komnir til Frakklands eða á leið …
Fjölmargir Íslendingar eru annaðhvort komnir til Frakklands eða á leið þangað til að fara á EM. Það er ekki of seint að skella sér. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki er öll von úti enn fyrir þá fótboltaáhugamenn sem hafa hug á að taka þátt í EM-veislunni sem nú fer fram í Frakklandi. Enn eru einhver flugsæti laus til Frakklands, bæði hjá Icelandair og WOW air, auk þess sem mögulegt er að ferðast til nærliggjandi landa og þaðan til Frakklands eða bóka í gegnum önnur flugfélög.

„Þetta eru fleiri flug en flestir gera sér grein fyrir,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en flugfélagið flýgur þrisvar til fjórum sinnum á dag til Parísar í sumar. Enn þá eru laus flugsæti á meðan Evrópumótið í knattspyrnu stendur yfir en Icelandair flýgur til Parísar samtals um 20 til 30 sinnum í viku. Þar að auki flýgur félagið nánast daglega til Genfar, Brussel, Frankfurt og Barcelona og með tengiflugi til Marseille. „Það er svo mikið flug í boði, í öllum þessum flugferðum er hægt að finna sæti til að komast á leiki, það er alveg hægt með skömmum fyrirvara,“ segir Guðjón en kveðst þó ekki viss um hvort laust sé í flug til Parísar á morgun, vilji einhver freista gæfunnar og ná fyrsta leik Íslands sem fer fram annað kvöld í frönsku borginni St. Étienne.

Samkvæmt upplýsingum frá WOW air eru örfá sæti laus til Parísar, Lyon og Nice á næstu dögum. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir yfir 98% sætanýtingu hafa verið í vélum félagsins í kringum fótboltamótið. Til að anna eftirspurn sendi félagið breiðþotur sínar af gerðinni Airbus A330 með 350 sætum í nokkrar flugferðir til Parísar. Þá bætti WOW einnig við nokkrum flugferðum til Lyon og Nice.

Það virðist því ekki vera of seint að láta slag standa og skella sér til Frakklands til að taka þátt í gleðinni þótt flugsætum fari fækkandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert