Héldu þriðja sæti þrátt fyrir sprungin dekk

Ljósmynd/Glacier 360°

Allir keppendur nema einn komu í mark við Gullfoss að lokinni þriðju og síðustu dagleið fjallahjólakeppninnar Glacier 360° umhverfis Langjökul í dag. Það var Team Hardrocx Abax by Swix sem hafnaði í fyrsta sæti skipað þeim Gregory Saw og Thomas Engelsgjerd. 

Fyrstu menn héldu sínu sæti en í þremur efstu sætunum voru þeir sömu og voru fyrstir að ljúka fyrstu dagleiðinni. Í öðru sæti var Team Trek Mester­hus skipað Norðmönnunum Knut Erik Neste­by og And­ers Fisk­vik og í þriðja sæti var liðið TF-WOW með þá Ingvar Ómarsson og Christian Helmig innanborðs.

Ingvar og Christian urðu fyrir því óláni að undan þeim sprungu tvö dekk í dag sem hægði á för þeirra og voru þeir í fjórða sæti á síðustu dagleiðinni. Í heildarkeppninni tókst þeim þó að halda sæti og höfnuðu því í þriðja sæti.

Aðeins einn keppandi af 62 þurfti að hætta keppni en að sögn Bjarkar Kristjánsdóttur hjá Made in Mountains var hann orðinn mjög þreyttur og fékk far á leiðarenda seinni partinn í dag.

Íslenskur mótvindur kom ekki að sök

Keppnin gekk ákaflega vel, lítið sem ekkert var um meiðsli eða slys á fólki og fór veðrið langt fram úr væntingum. „Það kvörtuðu margir reyndar yfir íslenskum mótvindi síðustu 20 kílómetrana á Kjalvegi,“ segir Björk, sem gerði keppendum örlítið erfitt fyrir. 

Rjómablíða var fyrsta daginn og veður ágætt í gær þrátt fyrir rigningu og rok á Hveravöllum þar sem hópurinn gisti aðra nóttina. Kvöldið áður voru þar settar upp tjaldbúðir en mjög hvasst var um nóttina og rigning. „Svo koma keppendur í mark, þá byrjar að lægja, dregur frá sólu og allt í einu frábært veður,“ segir Björk, himinlifandi með hvernig til tókst.

Aftur á næsta ári

Hópurinn heldur út í Viðey annað kvöld þar sem verður partý fyrir keppendur og aðstandendur keppninnar og fylgst með flugeldasýningunni á Menningarnótt.

„Þetta er bara komið til að vera,“ segir Björk sem er mjög ánægð með hvernig til tókst. Stefnt er að því að opna fljótlega fyrir skráningu fyrir keppnina á næsta ári ef allt gengur eftir.

Fréttir mbl.is:

Hjóla umhverfis Langjökul

Keppnin fer vel af stað

Mikill hiti í keppni fremstu liða

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert