„Gefur manni kraft og von“

Afgönsku mæðgurnar Torpikey Farrash og Mariam Raísi fyrir utan innanríkisráðuneytið …
Afgönsku mæðgurnar Torpikey Farrash og Mariam Raísi fyrir utan innanríkisráðuneytið í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Afgönsku mæðgurnar Torpikey Farrash og Mariam Raísi, sem hafa sótt um hæli hér á landi, eru mjög ánægðar með stuðninginn sem þær hafa fengið.

Undirskriftalisti vegna máls þeirra var afhentur í innanríkisráðuneytinu í dag. Alls skrifuðu 3.303 Íslendingar undir.

Frétt mbl.is: Yfir þrjú þúsund skrifuðu undir

Þunglyndi og martraðir

„Ég er mjög ánægð og þakklát að sjá stuðninginn. Þegar þú færð stuðning frá samfélaginu þar sem þú býrð þá líður þér eins og þú tilheyrir því. Þannig að þetta gefur manni krafti og von og er þess vegna mjög mikilvægt,“ segir Farrash í samtali við mbl.is eftir að listinn hafið verið afhentur.

Mæðgurnar hafa verið hælisleitendur í Evrópu í fjögur ár. Þær hafa fengið neitun um hæli á Íslandi en skorað hefur verið á kærunefnd útlendingamála að endurskoða ákvörðunina um að senda þær aftur til Svíþjóðar. Talið er nær öruggt að þær verði sendar þaðan aftur til Afganistans.

„Við erum orðnar mjög þreyttar á ástandinu og höfum glímt við þunglyndi. Við höfum líka fengið martraðir um að það eigi að senda okkur aftur til Afganistans,“ greinir Farrash frá.

Frétt mbl.is: „Brjálæði“ að senda þær aftur til baka

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, ein þeirra sem stóðu á bak við undirskriftasöfnunina, …
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, ein þeirra sem stóðu á bak við undirskriftasöfnunina, afhendir listann í innanríkisráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert öryggi í Afganistan 

Mæðgurnar eru á flótta vegna langvarandi stríðsátaka, kúgunar og ofbeldis í garð kvenna í heimalandi og vegna þess að þær tilheyra minnihlutahópum. Samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru þær í hættu í Afganistan.

„Augljóslega finnst okkur við ekki vera öruggar í Afganistan, annars myndum við ekki taka þá áhættu að koma til Íslands án tilheyrandi skjala. Það er ekkert öryggi að finna í Afganistan, sérstaklega ef þú ert kona.“

Íslendingar mjög vinalegir 

Spurð hvernig þeim hafi liðið hér á landi segir Farrah að Íslendingar hafi verið mjög vinalegir og hjálpsamir. „Þess vegna líkar mér lífið vel á Íslandi. Ég vona að ég fái að vera hér og byrja nýtt líf, bæði fyrir mig og dóttur mína,“ segir hún.

„Ég er mjög þakklát þeim Íslendingum og líka öðrum sem hafa hjálpað okkur og stutt undir þessum erfiðu kringumstæðum. Ég vona að við fáum að vera hér og að dóttir mín getið verið farið í skóla á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert