Bíður enn eftir milljónum frá Birni

Kristján Atli Baldursson, eigandi Netmidi.is, hefur enn ekki fengið endurgreiddar þær 5,2 milljónir króna sem Björn Steinbekk skuldar honum frá því á EM í fótbolta í sumar.

Kristján Atli keypti 100 miða af Birni á leik Íslands og Frakklands í 8-liða úrslitum á EM en áður hafði Kristján leigt 180 sæta flugvél frá Keflavík á leikinn, sem fór fram í Frakklandi í byrjun júlí. Þegar þangað var komið bólaði ekkert á miðunum frá Birni og sátu margir eftir með sárt ennið.

Frétt mbl.is: Svik, skipulagsleysi og barnaskapur

Miðarnir sem Kristján keypti voru fjármagnaðir með peningum úr leigufluginu ásamt láni og voru millifærðir inn á Sónar Reykjavík ehf. en Björn er fyrrverandi framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar.

„Birni Steinbekk og Sónar Reykjavík ehf. var gefinn tveggja mánaða frestur til að greiða inn á kröfuna einhverja fjárhæð áður en málið færi lengra. Fresturinn er liðinn og ekki ein króna komin frá þeim,“ segir hann.

Mikil rekistefna var í París vegna miðanna á leikinn.
Mikil rekistefna var í París vegna miðanna á leikinn. Ljósmynd/Aðsend

Á leið fyrir dómstóla

Kristján Atli segir að málið muni því fara alla leið fyrir dómstóla ásamt persónuréttarkröfu á Björn ef Sónar Reykjavík ehf. fer í þrot eins og hann talaði um á Facebook-síðu sinni. Þar tók Björn fram að núverandi aðili sem heldur um stjórnvölinn hjá Sónar átti að hafa ýtt honum í burtu og ætlaði að setja félagið í þrot og byrja upp á nýtt. Að sögn Kristjáns var póstinum á Facebook síðan eytt.

„Málið verður einnig tilkynnt til erlendu aðilanna sem standa að hátíðinni ásamt styrktaraðilum. Samkvæmt skráningu fyrirtækisins eru hann [Björn] og kona hans ásamt einum öðrum fjölskyldumeðlim eigendur félagsins og því veit ég ekki hvaða leikrit hann var að reyna að setja af stað.“

Frétt mbl.is: Hefði ekki fórnað öllu með svindli

Áhangendur íslenska landsliðsins í Frakklandi.
Áhangendur íslenska landsliðsins í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Engin samskipti við Björn

Spurður hvort Björn hafi lofað því að endurgreiða honum miðana segir Kristján hann einungis hafa bent á lögfræðistofuna sem sér um málið fyrir hann. Sjálfur hefur Kristján ekki reynt að ræða við Björn. „Ég hef ekki átt í neinum samskiptum við hann eftir að leikurinn fór fram, nema að hann tilkynnti að lögfræðistofa myndi sjá um kröfurnar,“ segir hann.

„Fullyrðingar hans í fjölmiðlum um að allir hafi fengið sína miða endurgreidda og að einhverjir peningar hafi verið greiddir inn á reikning lögfræðistofunnar virðast bara vera kjaftæði eins og flestallt sem kemur frá honum.“

Frétt mbl.is: Segist hafa endurgreitt 10 milljónir 

Sjálfur hefur Kristján endurgreitt öllum þeim sem keyptu af honum miða. Flestir fengu þá endurgreidda  á mánudeginum eftir leikinn en aðrir tveimur til þremur vikum síðar.

Fjöldi fólks fékk ekki miða á leikinn þrátt fyrir að …
Fjöldi fólks fékk ekki miða á leikinn þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá. Ljósmynd/Aðsend

Biðst afsökunar 

Hvernig hefur þér liðið út af þessu máli?

„Ég viðurkenni að þetta hefur tekið á mig og kærustuna mína þar sem allt sparifé okkar og meira til hefur farið í þetta. Ég skulda 4,2 milljónir eftir þetta allt saman og ég hef verið að vinna mikið undanfarið til að borga niður þær skuldir. En ég vil bara nýta tækifærið og biðja alla þá sem voru í þessu flugi afsökunar á öllu þessu klúðri, ásamt því að leigufluginu hafi verið flýtt um þrettán tíma,“ segir hann en 12 manns misstu af fluginu heim þar sem brottförinni var flýtt vegna mistaka af hálfu flugfélagsins.

Ljósmynd/Aðsend
Íslenskir stuðningsmenn á leik liðsins gegn Frakklandi í átta liða …
Íslenskir stuðningsmenn á leik liðsins gegn Frakklandi í átta liða úrslitum á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert