Katrín komin með umboðið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fól í dag Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður. „Við ræddum um að þótt að ekki mætti rasa fyrir ráð fram þá þyrfti að hafa hraðar hendur,“ sagði Guðni við blaðamenn á Bessastöðum í dag.

Guðni sagði að í gær hefði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tjáð sér að viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn hefði verið slitið. Í framhaldi af því hafi hann rætt við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, og farið þess á leit við hana að hún myndi leiða viðræður um stjórnarmyndun, „taka við stjórnarmyndunarumboðinu,“ sagði Guðni. „Hún varð við því.“

Eftir það ræddi Guðni við formenn og fulltrúa annarra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og tilkynnti þeim þessa ákvörðun sína. 

 Um fundinn með Katrínu á Bessastöðum í dag sagði Guðni: „Við töluðum saman. Hún fékk umboð mitt til að leiða stjórnarmyndunarviðræður. Við ræddum um það að þótt ekki mætti rasa fyrir ráð fram þá þyrfti að hafa hraðar hendur. Hún sýndi því sjónarmiði mínu fullan skilning.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræðir við blaðamen á Bessastöðum …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræðir við blaðamen á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn eindagi ákveðinn

 Guðni var á blaðamannafundinum spurður um hvort einhver dagsetning hefði verið ákveðin um hvenær viðræðum yrði að vera lokið. Guðni sagði að ekki hefði verið rætt um neinn eindaga. „En við töluðum um það að um helgina eða í síðasta lagi á mánudag, þriðjudag, myndi Katrín hitta mig aftur að máli og segja mér hvernig gengi.“

Guðni sagðist svo að sjálfsögðu ætla að fylgjast með framvindunni í fjölmiðlum. 

Spurður hvort að það hefðu verið vonbrigði að Bjarna Benediktssyni hefði ekki tekist að mynda ríkisstjórn svaraði Guðni: „Ég vil eins og aðrir Íslendingar að hér verði mynduð stjórn. Vissulega batt ég nokkrar vonir við að þessar umræður sem hófust fyrir helgi skiluðu árangri.“ En þegar það hafi verið orðið ljóst að það myndi ekki ganga hafi einfaldlega þurft að taka næstu skref.

Hugnast ekki utanþingsstjórn

„Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Katrín og þeir sem hún kallar til vinni að heilindum,“ sagði Guðni. „Við vissum það öll þegar úrslit lágu fyrir að það gæti reynst snúið að mynda ríkisstjórn. [...] En það er í þessu eins og ýmsu öðru að þolinmæði er dyggð.“

Fjölmiðlamenn spurðu Guðna hvernig honum hugnaðist utanþingsstjórn. Hann sagði alls ekki tímabært að hugleiða þann kost. Slík stjórn hefði aðeins einu sinni verið mynduð á Íslandi og það hafi verið fyrir lýðveldisstofnun. „Við skulum láta hugmyndina lifa áfram í heimi sagnfræðinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert