Krefjast þess að Gæslan fái nægt rekstrarfé

Áætlanir um niðurskurð á rekstrarfé til Landhelgisgæslunnar koma ekki til …
Áætlanir um niðurskurð á rekstrarfé til Landhelgisgæslunnar koma ekki til greina að mati hagsmunasamtaka íslenskra sjómanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 eru Landhelgisgæslunni, að mati forstjóra hennar, ekki tryggðir nægir rekstrarfjármunir til að sinna mikilvægu eftirlits- og öryggishlutverki á sjó og landi.

Kemur þetta fram í ályktun hagsmunafélags sjómanna vegna fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 og áhrifa þess á Landhelgisgæslu Íslands.

Þar kemur fram að segja þurfi upp starfsfólki og fækka þyrlum nái frumvarpið fram að ganga óbreytt, varðandi það fjármagn sem Landhelgisgæslunni er ætlað. Hagsmunasamtök sjómanna krefjast þess að stjórnvöld og Alþingi tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma.

Frétt mbl.is: Geigvænlegar afleiðingar fyrir Gæsluna

Sérstaklega eigi þetta við um rekstur varðskipa og þyrlna Landhelgisgæslunnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að nægur þyrlu- og skipakostur sé til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Næg dæmi eru um að viðbragðs- og björgunargeta Landhelgisgæslunnar hafi komið í veg fyrir manntjón á liðnum árum. Þetta megi alls ekki breytast.

Skömm sé að því að þjóð sem á svo mikið undir sjósókn geti ekki lagt fram nægt fé til reksturs Landhelgisgæslu Íslands sem sjómenn og aðrir landsmenn treysta á þegar neyðin er stærst. Allar áætlanir um niðurskurð á rekstrarfé til Landhelgisgæslunnar koma ekki til greina að mati hagsmunasamtaka íslenskra sjómanna, sem beina því til Alþingis að bæta verulega í það fjármagn sem Landhelgisgæslan fær á fjárlögum næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert