Engar forsendur til að hætta við

United Silicon í Helguvík.
United Silicon í Helguvík. Ljósmynd/United Silicon

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, telur að það þurfi að halda áfram að styrkja stoðir atvinnulífs á Reykjanesi. Þó að atvinnuleysi sé minna núna, en þegar ákveðið var að Thorsil skyldi reisa aðra verk­smiðju við hlið verksmiðju United Silicon í Helguvík, séu engar forsendur til að snúa þeirri ákvörðun til baka.

„Atvinnuleysi kemur og fer, stundum er það lítið og stundum er það mikið. Þannig að þó að það sé mikið framboð af vinnu núna og lítið atvinnuleysi þurfa menn að halda áfram að styrkja stoðir atvinnulífs á svæðinu,“ segir Kjartan og bendir á að áform um aðra verksmiðju hafi lengi verið uppi.

Það kom fram á kynningarfundi á fimmtudag að Thorsil eru búnir að setja tvo milljarða í verkefnið. Við létum þá bara hafa lóð, það er eina aðkoma sveitarfélagsins að þessu. Það eru engar forsendur fyrir því hjá okkur núna að fara að reyna að snúa til baka í því,“ bætir Kjartan við.

Spurður um þá gagnrýni sem United Siliocon hefur hlotið undanfarnar vikur og mánuði vegna mengunar segir Kjartan Umhverfisstofnun vera með það mál á sinni könnu.

Það kom fram á áðurnefndum fundi að stofnunin telur engar mælingar, eða ekkert í tölunum sem þeir eru með, gefa ástæðu til annars en að þetta sé allt innan marka. Þar af leiðandi er haldið áfram með málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert