Ótrúlegt að reisa eigi annað kísilver

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að sér þætti ótrúlegt að reisa ætti annað kísilver við hlið þess sem búið sé að reisa í Helguvík, á vegum United Silicon.

Spurði hann hvort umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, hygðist beita sér gegn því að nýja verið, á vegum Thorsil, myndi verða reist. Benti hann á umfjöllun fjölmiðla um mengun frá veri United Silicon, og að ver Thorsil myndi framleiða annað eins.

Björt sagðist hafa haft miklar áhyggjur af málinu.

„Umhverfisstofnun er með kísilverið í hálfgerðri gjörgæslu,“ sagði Björt og bætti við að samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnarlækni væri ekki að merkja aukin veikindi á svæðinu í kjölfar umfjöllunar um útblástur frá verinu.

Þurfi að virða stjórnskipan landsins

Sagðist hún vilja óska þess að stjórnvöld hefðu ekki tekið þá ákvörðun, að veita umræddum fyrirtækjum leyfi til að reisa verksmiðjurnar.

„Við munum ekki veita áframhaldandi starfsleyfi ef þau fara fram úr þeim mengunarleyfum, sem þau þó hafa, frá fyrri ríkisstjórn.“

Sagði hún einnig að erfitt væri að koma að orðnum hlut. 

„Ég hefði óskað þess að íbúar í Reykjanesbæ hefðu kosið sér meiri umhverfisverndarsinna, sem hefðu ekki hleypt þessu í gegn.“

Hún þyrfti þó að virða stjórnskipan landsins, og þau leyfi sem veitt hefðu verið.

„Þó það sé mér þvert um geð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert