Mæðgurnar fá hæli á Íslandi

Afgönsku mæðgurnar Torpikey Farrash og Mariam Raísi.
Afgönsku mæðgurnar Torpikey Farrash og Mariam Raísi. mbl.is/Árni Sæberg

Af­gönsku mæðgurn­ar Torpikey Farrash og Mariam Raísi, fengu í gær  hæli og vernd sem flóttakonur á Íslandi. Þær hafa verið á flótta í fjölmörg ár en þeim var neitað um hæli hér á landi af Útlendingastofnun í ágúst í fyrra. Kær­u­nefnd út­lend­inga­mála vísaði máli þeirra aftur til Útlend­inga­stofn­un­ar í nóvember. Konur úr ólíkum áttum hafa frá því í fyrra barist fyrir því að mæðgurnar fengju vernd hér. 

Yfir 3.300 skrifuðu undir undirskriftarsöfnun á sínum tíma þar sem skorað var á íslensk stjórnvöld að veita mæðgunum hæli hér á landi.

Mæðgurnar Mariam Raísi og Torpikey Farrash hafa verið á flótta …
Mæðgurnar Mariam Raísi og Torpikey Farrash hafa verið á flótta sl. 15 ár. Mariam leiddi ljósagöngu UN Woman í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mariam Raísi leiddi ljósagöngu UN Women í nóvember þar sem kynbundnu ofbeldi er mótmælt og segir í fréttatilkynningu sem send var út af því tilefni að mæðgurnar hafi verið á flótta und­an­far­in 15 ár. Þegar Mariam var fjög­urra ára göm­ul tóku talíban­ar völd­in í Af­gan­ist­an og neydd­ust mæðgurn­ar til að flýja frá Kabúl. All­ar göt­ur síðan hafa þær verið á flótta og flakkað milli Írans og Af­gan­ist­ans.

„Þegar stríðsherra í Af­gan­ist­an ætlaði að taka sér Mariam sem konu flúðu mæðgurn­ar til Evr­ópu og síðar til Svíþjóðar eft­ir langt og strangt ferðalag. Eft­ir þriggja ára dvöl þeirra í Svíþjóð var þeim neitað um hæli. Þá héldu þær næst til Íslands þar sem þeim var neitað um hæli eft­ir þriggja mánaða dvöl.“

Ákváðu að láta reyna á kerfið

Að sögn Magneu Marinósdóttur, sem er ein þeirra sem hefur beitt sér fyrir því að þeim yrði veitt hæli á Íslandi, staðfestir sú ákvöðrun stjórnvalda að veita þeim hæli í stað dvalarleyfis af mannúðarástæðum að málflutningur hópsins, sem Magnea vann með, var á rökum reistur.
Magnea segir að Útlendingastofnun hafi ætlað að fylgja fordæmi Svía um að veita þeim ekki hæli á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaðan var áfrýjað til kærunefndar útlendingamála og benti allt til þess á tímabili að niðurstaðan yrði sú að staðfesta úrskurð Útlendingastofnunar.

Mynd sem var tekin í höfuðborg Afganistan, Kabúl, í morgun.
Mynd sem var tekin í höfuðborg Afganistan, Kabúl, í morgun. AFP

Þóra Arnórsdóttir tók mál mæðgnanna fyrir í Kastljósi og varpaði ljósi á mál þeirra meðal annars með því að ræða við formann kærunefndar Í máli hans kom fram að ekki væri búið að taka ákvörðun um að staðfesta niðurstöðu Útlendingastofnunar. Í kjölfarið fór boltinn að rúlla en áður hafði Halla Harðardóttir fjallað um mál þeirra í Fréttatímanum.

Það var sú umfjöllun sem gerði það að verkum að Magnea og Guðbjörg Lilja Hjartardóttir ákváðu að skrifa bréf til kærunefndar. Ástæðan fyrir því að Magnea og Lilja fóru að hafa afskipti af málinu var sú að þeim fannst þeim renna blóðið til skyldunnar vitandi hver staðan er í Afganistan og þá einkum og sér í lagi kvenna, ekki síst kvenna sem tilheyra minnihlutahóp Hazara. Þeir eru síja-múslímar og í raun ofsóttir af bæði talibönum og vígasveitum Ríkis íslams. Þær gátu ekki hugsað sér að þær yrðu sendar aftur til Svíþjóðar og þaðan til Afganistan. Það sama gilti um Hildigunni Sverrisdóttur og Ingibjörgu Stefánsdóttur sem komu til liðs við Magneu og Lilju skömmu síðar og fleiri.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarkona, og hópur í kringum hana var á sama tíma farinn að berjast fyrir dvöl þeirra Torpikey Farrash og Mariam Raísi á Íslandi. Meðal annars með því að hleypa af stokkunum undirskriftarsöfnun á netinu.

Að sögn Magneu var það í gegnum lögfræðing Rauða krossins, sem sér um hagsmunagæslu fyrir hælisleitendur, sem tenging komst á hennar hóps og Hrafnhildar sem unnu saman eftir það.
 
„Við ákváðum að láta reyna á kerfið og stefnu stjórnvalda í málefnum flóttakvenna sem er að finna í framkvæmdaáætlun stjórnvalda um konur, frið og öryggi,“ segir Magnea í samtali við mbl.is. Þær sendu bréf á kærunefndina, innanríkisráðuneytið og  embætti forseta Íslands auk þess sem þær komu fram í fjölmiðlum og áttu fundi með ráðamönnum og í gær varð ljóst að mæðgurnar fengju alþjóðlega vernd á Íslandi.

Við vildum að Ísland stæði við skuldbindingar sínar og um leið að gagnrýna það að íslensk stjórnvöld vildu ekki vefengja það á nokkurn hátt að Svíar gætu hafa gert mistök í máli þeirra, segir Magnea. Eins var bent á að oft væru kynjasjónarmið hunsuð af sænskum yfirvöldum og konur fengju einfaldlega ekki réttláta málsmeðferð í Svíþjóð. 

Að sögn Magneu er sérstaklega tekið á því í framkvæmdaáætlun íslenskra stjórnvalda um konur, frið og öryggi sú mismunandi staða sem konur og karlar hafa á stríðsátakaskvæðum. Sérstaklega sé þar talað um flóttafólk í hættu með áherslu á konur.

Börn við tjaldbúðir sínar í Jalalabad.
Börn við tjaldbúðir sínar í Jalalabad. AFP

Tilheyra hópi kvenna í hættu sem er í forgangi hjá stjórnvöldum

„Í rauninni er að það þannig að ef þær mæðgur hefðu verið í flóttamannabúðum á vegum Flóttamannamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna þá hefðu þær verið flokkaðar sem konur í hættu og þannig tilheyrt forgangshópi hjá íslenskum stjórnvöldum. Við bendum á það í bréfum sem send voru til kærunefndarinnar að stjórnvöld ættu að vera sjálfum sér samkvæm og veita þeim hæli á grundvelli sinnar eigin stefnumörkunar í málefnum flóttakvenna,“ segir Magnea. 

Hún bendir einnig á að það er engin lagastoð sem skyldar íslensk stjórnvöld til þess að beita Dyflinnarreglugerðinni. Ísland sé sjálfstætt fullvalda ríki sem hefur sjálfsákvörðunarrétt í svona málum.

Mariam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan
Mariam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan Af Petitons24.is

Svíar hafa frá því að ákvörðun um að synja mæðgunum um hæli breytt áherslum sínum varðandi hælisleitendur sem þaðan koma. Afganistan er ekki lengur álitið öruggt land líkt og dæmin undanfarin misseri sýna. Sjálfsvígsárásir og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum fara stigvaxandi og fyrir fólk úr minnihlutahópum, líkt og þær mæðgur, er ástandið skelfilegt. Ekki síst í þeirra heimahéraði, Helmand, þar sem talibanar og vígasveitir Ríkis íslams berjast um völdin. 

„Það vita allir að konur ganga kaupum og sölum meðal vígamanna, talibana og Ríkis íslams sem nú eru í innbyrðis átökum. Að senda þær til baka til Afganistan jafngildir því að senda þær út í opinn dauðann í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og gengur þvert á öll verndar- og mannúðarsjónarmið,“ segir Magnea sem er menntaður alþjóðastjórnmálafræðingur með sérþekkingu á málefnum kvenna í Afganistan og hefur starfað í landinu. 

Frá Helmand-héraði.
Frá Helmand-héraði. AFP

Fyrir rúmum fimm árum hvarf eiginmaður Torpikey Farrash og sonur þeirra en feðgarnir höfðu farið á trúarhátíð síja-múslíma í Kabúl. Árás var gerð á hátíðargesti og hefur ekkert spurst til þeirra síðan og má leiða líkum að því að þeir hafi báðir látist í árásinni. 

Magnea fagnar því að mæðgurnar séu loksins komnar í örugga höfn en á sama tíma sé það dapurlegt að það þurfi aðgerðir sem þessar til þess að fólk fái réttláta málsmeðferð hér á landi en auk bréfaskrifta og undirskriftarsöfnunar fóru konur úr hópnum, sem varð til, á fund forseta Íslands þar sem þær töluðu máli þeirra Torpikey Farrash og Maraiam Raísi.

Að endingu, eftir skoðun kærunefndar, sem vísaði málinu aftur til Útlendingastofnunar til efnislegrar meðferðar, hafa þær mæðgum fengið hæli og frið í sálina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert